Skólar HSÞ á Íslandi

Háskóli Sameinuðu þjóðanna (HSÞ)

Háskóli Sameinuðu þjóðanna hóf störf árið 1975 til að styrkja alþjóðlegt samstarf á milli SÞ , háskóla og annarra sem stunda vísindarannsóknir, með sérstaka áherslu á þróunarríkin. Markmið skólans er m.a. að tengja vísindamenn víðs vegar að úr heiminum og að efla rannsóknir á málefnum sem eru ofarlega á baugi hjá SÞ, annars vegar umhverfismál og sjálfbæra þróun og hinsvegar frið og góða stjórnunarhætti. Skólar sem eru hluti af neti Háskóla SÞ eru nú 16 talsins og starfa víða um heim í aðildarríkjum SÞ.

Hér á landi starfa fjórir skólar innan vébanda Háskóla Sameinuðu þjóðanna; Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn. Skólarnir bjóða upp á 6 mánaða námskeið fyrir starfandi sérfræðinga frá þróunarlöndum, en starfsemi skólanna er hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslendinga.