UN Women
  • Mynd af konu með 50kg poka á höfðinu

Stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women)

UN Women tók formlega til starfa 1. janúar 2011, en stofnunin varð til við samruna fjögurra fjögurra stofnana sem unnu að kynjajafnréttismálum innan SÞ, þar á meðal UNIFEM. Stofnunin er í fararbroddi í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna á heimsvísu og er eina stofnun SÞ sem vinnur eingöngu að jafnrétti kynjanna.  Áherslusvið UN Women eru: að auka þátttöku kvenna, m.a. í stjórnmálum; efnahagsleg valdefling kvenna; að stöðva ofbeldi gegn konum, að styðja við innleiðingu áætlana um konur, frið og öryggi, og stuðla að því að kynjajafnrétti sé miðlægt í allri áætlana- og fjárlagagerð. Auk þess styður UN Women við kynjasamþættingu innan annarra stofnana SÞ og er leiðandi á alþjóðlegum vettvangi hvað varðar jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna, s.s. í umræðunni um ný þróunarmarkmið árið 2015.

Ísland veitir almenn framlög til UN Women auk þess sem veitt eru eyrnarmerkt framlög í styrktarsjóð um afnám ofbeldis gegn konum og til starfsemi UN Women í Palestínu og Afganistan. Auk þess hafa verið veitt framlög í sjóð sem settur var á laggirnar eftir Ríó+20, en tilgangur hans er að tryggja að jafnréttissjónarmiðum sé komið á framfæri í alþjóðlegum samningaviðræðum og stefnumótun á sviði loftslagsmála.

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil átt gott samstarf við Landsnefnd UN Women á Íslandi, og hafa verið gerðir um það formlegir samstarfssamningar. Núverandi samningur gildir tímabilið 2013-2015.