Evrópumál

Uppbyggingarsjóður EES

Uppbyggingarsjóður EES (áður Þróunarsjóður EFTA)

Allt frá gildistöku EES–samningsins hafa EFTA–ríkin innan EES, Noregur, Ísland og Liechtenstein, skuldbundið sig til að leggja sitt af mörkum til að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessari skuldbindingu felst að að EFTA-ríkin fjármagna í gegnum sérstakan sjóð – Uppbyggingarsjóð EES – ýmsar umbætur og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem lakar standa í efnahagslegu tilliti. Styrkþegaríki sjóðsins eru því öll í Suður- og Austur-Evrópu. Af hálfu ESB er litið svo til að stuðningur við þau varði forsendur þess að EFTA-ríkin hafi aðgang að innri markaðnum í gegnum EES-samninginn, en jafnframt er af þeirra hálfu samið um ýmsar viðskiptalegar ívilnanir. Að því er Ísland varðar snúast þær um tollfrjálsan markaðsaðgang fyrir tilteknar sjávarafurðir.

Samningar um framlög til sjóðsins eru gerðir til fimm ára í senn og varir núverandi tímabil frá 2009-2014. Framlög á því tímabili nema samtals tæpum einum milljarði evra, en af því nemur framlag Íslands um 3,23%  og getur að öllu samanlögðu orðið 31,4milljónir evra. Jafnframt er samið um stækkun sjóðsins eftir því sem ný aðildarríki bætast við ESB og þar með EES. Um þessar mundir er t.a.m. unnið að samningum um stækkun sjóðsins samfara aðild Króatíu að Evrópusambandinu. Jafnframt er hafinn undirbúningur að starfsemi sjóðsins fyrir næsta tímabil (2014-2019).

Á yfirstandandi starfstímabili starfar sjóðurinn á sérstökum áherslusviðum. Þessi svið varða m.a. umhverfismál, heilbrigðismál, rannsóknir, menntun, menningu og samfélagslegar umbætur af ýmsu tagi auk þess að styðja við og styrkja starfsemi frjálsra félagasamtaka í styrkþegaríkjunum. Samið er við hvert styrkþegaríki um sig um þær áherslur sem það kýs að leggja við ráðstöfun styrkfjárins. Á grundvelli þessara samninga eru gerðar áætlanir um þau verkefni sem rekin eru fyrir þetta fé og eru mörg þeirra boðin út og auglýst opinberlega eftir öllum sem áhuga hafa á þátttöku í þeim.

Auk þess að jafna samkeppnisstöðu styrkþegaríkjanna er annað meginmarkmið sjóðsins fólgið í að styrkja tvíhliða tengsl þeirra við EFTA-ríkin sem aðild eiga að EES. Á þeim grundvelli eru margar áætlanirnar reknar sem samstarfsáætlanir með samstarfaðilum frá einhverjum EFTA-ríkjanna, einu eða fleirum, og þær gera ráð fyrir samstarfsverkefnum með þátttöku frá a.m.k. einu EFTA-ríkjanna.

Styrkþegaríki Uppbyggingarsjóðs EES eru eftirfarandi:

Búlgaría, Eistland, Grikkland, Kýpur, Lettland, Litháen, MaltaPortúgalPólland, Rúmenía, Slóvakía, SlóveníaSpánnTékkland og Ungverjaland. 

Nánari upplýsingar um Uppbyggingarsjóð EES má nálgast á vef skrifstofu sjóðsins í Brussel (Financial Mechanism Office) þar sem einnig er hægt að fylgjast með auglýsingum eftir umsóknum um þátttöku í verkefnum.


Þátttaka Íslands í samstarfsáætlunum styrkþegaríkja Uppbyggingarsjóðs EES

EES/EFTA ríkin semja við styrkþegaríkin um hvaða áherslur eru lagðar í hverju ríki um sig og um leið hvaða áætlanir eru reknar sem samstarfsáætlanir og með hvaða samstarfsaðilum. Af um 150 áætlunum er rúmur helmingur rekin sem samstarfsáætlanir, þar af eru þrjár jarðhitaáætlanir reknar í samstarfi við Orkustofnun og ein rannsóknaáætlun og 11 skólastyrkjaáætlanir reknar í samstarfi við Rannís og SIU í Noregi.

Auk þátttöku í ofangreindum samstarfsáætlunum taka íslensk fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir þátt í ýmsum verkefnum sem styrkt eru af Uppbyggingarsjóði EES.

 

Frjáls félagasamtök

Um 15% styrkfjár sjóðsins rennur til að byggja upp frjáls félagasamtök í styrkþegaríkjunum eða um 150 milljón evra. Gerðar eru áætlanir um ráðstöfun fjárins í hverju ríki um sig. Áherslur eru nokkuð mismunandi eftir ríkjum, en verkefnin sem styrkt verða ná yfir breitt svið, s.s. mannréttindi, jafnrétti, mansal, menningarverðmæti, umhverfisvernd, loftlagsbreytingar, velferðamál sem og þjálfun og endurmenntun. 

Sérstök áhersla er lögð á tvíhliða samstarf við frjáls félagasamtök í EFTA-ríkjunum getur sjóðurinn skapað einstakt tækifæri fyrir frjáls félagasamtök á Íslandi til að vinna að sameiginlegum verkefnum í einhverju styrkþegaríkjanna. Auk styrkja sem renna til verkefnanna sjálfra eru veittir styrkir til tengslamyndunar og verkefnaþróunar.

Mannréttindaskrifstofa Íslands er tengiliður á Íslandi við sjóðinn og styrkþegaríkin.