Svalbarðamálið

Svalbarðamálið

Með samningnum um Svalbarða árið 1920 voru Noregi falin fullveldisréttindi yfir Svalbarða. Aðildarríki samningsins eru 40 talsins og er Ísland þar á meðal.

Ágreiningur hefur ríkt milli Noregs annars vegar og Íslands og fjölda annarra aðildarríkja samningsins hins vegar um gildissvið Svalbarðasamningsins. Íslensk stjórnvöld líta svo á að samningurinn sé eini hugsanlegi grundvöllur fullveldisréttinda Noregs á hafsvæðunum í kringum Svalbarða, þ.m.t. efnahagslögsaga og landgrunn. Fullveldisréttindi Noregs eru háð mikilvægum takmörkunum sem kveðið er á um í samningnum og skiptir þar mestu máli jafnræðisregla hans. Takmarkanir þessar gilda jafnt á Svalbarða sjálfum, innan 12 mílna landhelginnar, innan 200 mílna lögsögunnar og á landgrunni Svalbarða. Augljóst er að réttindi Noregs í lögsögunni og á landgrunninu umhverfis Svalbarða geta ekki verið umfangsmeiri en réttindi Noregs á Svalbarða sjálfum sem fyrrnefndu réttindin eru leidd af.

Ísland gerðist aðili að Svalbarðasamningnum árið 1994 og hefur samkvæmt framangreindu jafnan rétt á við önnur aðildarríki samningsins til fiskveiða í lögsögu Svalbarða og nýtingar hugsanlegra auðlinda á landgrunni hans. Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að standa vörð um þessi réttindi og munu áfram gæta hagsmuna Íslands sem aðildarríkis Svalbarðasamningsins.
Uppfært: 12/15     |     Athugsemdir sendist  hér