Hafréttarmál hjá FAO

Hafréttarmál á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna

Í kjölfar áskorunar allsherjarþings SÞ voru á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, haustið 2008 samþykktar alþjóðlegar leiðbeiningarreglur um djúpsjávarveiðar og verndun viðkvæmra vistkerfa hafsins. Reglunum er ætlað að auðvelda ríkjum og svæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum að skilgreina og auðkenna viðkvæm vistkerfi, meta hugsanleg skaðleg áhrif fiskveiða á þau og grípa til viðeigandi aðgerða. Ísland hefur tekið virkan þátt í framkvæmd þeirra, m.a. á vettvangi svæðastofnananna NEAFC (North East Atlantic Fisheries Commission) og NAFO (Northwest Atlantic Fisheries Organisation).

Ísland hefur verið í fararbroddi í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum og tóku íslensk stjórnvöld virkan þátt í samningaviðræðum á vettvangi FAO um gerð nýs alþjóðasamnings um aðgerðir hafnríkja gegn ólöglegum fiskveiðum (Agreement on Port State Measures to Prevent, Deter and Eliminate Illigal, Unreported and Unregulated Fishing). Samningurinn var samþykktur 2009 og fullgiltur af Íslands hálfu 2015. Um er að ræða fyrsta alþjóðasamning sem gerður er gagngert til að berjast gegn ólöglegum fiskveiðum og er hann afar mikilvægur þáttur í því. Samningurinn skuldbindur aðildarríki hans til að loka höfnum sínum fyrir skipum sem gerst hafa uppvís að ólöglegum fiskveiðum og synja þeim um löndun, umskipun og hvers konar þjónustu. 
Uppfært: 12/15     |     Athugsemdir sendist  hér