Norðurlandaskrifstofa

Norðurlandaskrifstofa


Norðurlandaskrifstofa sinnir þverfaglegum málefnum Norrænu ráðherranefndarinnar á vegum ríkisstjórnar Íslands. Hún heyrir undir utanríkisráðuneytið en veitir jafnframt aðstoð þeim ráðherra sem falið er að fara með norrænt samstarf, samstarfsráðherra Norðurlanda.

Norðurlandaskrifstofa skipuleggur og samræmir norræn samstarfsmál á grundvelli Helsingforssamningsins sem Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð og sjálfsstjórnarlöndin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland eru aðilar að. Á skrifstofunni eru undirbúin mál sem lögð eru fyrir norrænu samstarfsráðherrana (MR-SAM) og norrænu samstarfsnefndina(NSK).

Skrifstofan ber ábyrgð á undirbúningi ýmissa norrænna samstarfssamninga og málefna sem tengjast skipulagi og samræmingu í norrænu samstarfi. Auk þess undirbýr hún fjárveitingar til norræns samstarfs. Árleg skýrsla sem samstarfsráðherra Norðurlanda leggur fyrir Alþingi er unnin á skrifstofunni á grundvelli upplýsinga frá ráðuneytunum. Skrifstofan sinnir ennfremur ýmissi upplýsingastarfsemi og svarar fyrirspurnum um norrænt samstarf.

Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð skiptast á um að hafa með höndum formennsku til eins árs í senn. Upplýsingar um formennsku í Norrænu ráðherranefndinni er að finna á heimasíðunni norden.org.

Skrifstofustjóri Norðurlandaskrifstofu er Elín Flygenring. Aðrir starfsmenn eru  Ragnheiður Harðardóttir og Hanne Fisker.