Norræna ráðherranefndin

Norræna ráðherranefndin


Norræna ráðherranefndin var stofnuð árið 1971 og er vettvangur ríkisstjórnasamstarfs Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar auk sjálfsstjórnarlandanna Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Samvinna við grannríki Norðurlanda er mikilvægt verkefni og sama gildir um allt samstarf sem eflir áhrif landanna í Evrópu.  Hafður er að leiðarljósi norrænn virðisauki en með því er átt við að samstarfið fari fram á sviðum þar sem hagsmunir þjóðanna fara saman og hagkvæmara er að sameina kraftana og takast í sameiningu á við úrlausnarefnin.

Norræna ráðherranefndin er í raun samsett úr 10 minni nefndum fagráðherra sem hittast reglulega og bera ábyrgð á norrænu samstarfi um menningarmál, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, matvæla- og skógræktarmál, jafnréttismál, menntun og rannsóknir, félags- og heilbrigðismál, atvinnu-, orku- og byggðamál, umhverfismál, vinnumál, efnahags- og ríkisfjármál og löggjafarmál. Forsætisráðherrar Norðurlanda bera meginábyrgð á samstarfinu en fela samstarfsráðherrum Norðurlanda daglega stefnumótun og samræmingu samstarfsins. Allar ákvarðanir ráðherranefndarinnar verða að vera samhljóma vegna þess að þær eru bindandi fyrir samstarfsríkin. Í sumum tilvikum þurfa þjóðþingin að staðfesta ákvarðanir ráðherranefndarinnar til að hrinda megi þeim í framkvæmd.

Höfuðstöðvar Norrænu ráðherranefndarinnar eru staðsettar Ved Stranden 18 í Kaupmannahöfn. Starfa þar um 110 manns en á stofnunum ráðherranefndarinnar eru yfir 200 starfsmenn. Starfsemin er fjármögnuð með framlögum frá norrænu ríkjunum í réttu hlutfalli við íbúatölu og þjóðarframleiðslu. Norrænu ríkin skiptast á um að gegna formennsku í ráðherranefndinni.