Auðlinda- og umhverfismál

Auðlinda og umhverfismál

Nýting náttúruauðlinda hefur lagt grunninn að hagsæld Íslands. Íslendingar hafa tækifæri til þess að koma reynslu sinni og sérþekkingu á sviði sjávarútvegs og endurnýjanlegrar orku á framfæri á alþjóðavettvangi, og leggja þannig sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar.

Umfang auðlinda- og umhverfsimála í starfi íslenskra stjórnvalda hefur aukist mjög á síðustu árum og eru þau orðin einn viðamesti málaflokkur alþjóðastjórnmála. Skilningur á tengslum umhverfismála við öryggismál, þróun og efnahagsbyggingu fer ört vaxandi. Jafnframt eru gerðar auknar kröfur til ríkja heims um samræmda stefnu og aðgerðir í þessum málaflokki. Alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda er því orðið eitt mikilvægasta viðfangsefni alþjóða samfélagsins í dag. Slíkt samstarf er sérstaklega mikilvægt fyrir Ísland sem byggir efnahag sinn að stórum hluta á hreinni náttúru og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu og reynslu á öllum þessum sviðum og geta lagt mikið af mörkum til úrlausnar viðfangsefna þeim tengdum á alþjóðavísu. Það er hlutverk utanríkisráðuneytisins og auðlinda- og umhverfisskrifstofu, að taka virkan þátt í alþjóðlegu starfi og samningum á breiðu sviði er tekur til sjálfbærrar þróunar, málefna hafsins, fiskveiðisamninga, hvalamála, orkumála, loftslagsmála, jarðvegsverndar og baráttunnar gegn eyðimerkurmyndum, sjálfbærrar nýtingar, verndar líffræðilegs fjölbreyttleika og Norðurslóðamálefna.

Þáttur loftslagsmála hefur vaxið sérstaklega hratt. Loftslagsmálin hafa beint athygli alþjóðasamfélagsins að því hvernig umsvif mannsins hafa gjörbreytt ásýnd jarðarinnar. Skilningur alþjóðasamfélagsins á málefnum hafsins hefur sömuleiðis aukist mjög enda dylst engum mikilvægi sjávarins fyrir lífríki jarðar og loftslag. Árangur fiskveiðistefnu Íslendinga þar sem aflaheimilidir byggjast á vísindaráðgjöf hefur vakið eftirtekt á alþjóðavettvangi og er gjarnan litið til Íslands sem fyrirmyndar á því sviði.