Evrópusambandið

Evrópusambandið (ESB)

Ísland og Evrópusambandið (ESB) eiga samráð og samvinnu í utanríkis- og öryggismálum á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, en í honum er sameiginleg yfirlýsing ríkisstjórna aðildarríkja ESB og EES-EFTA-ríkjanna um pólitísk skoðanaskipti. Í framkvæmd er EES-EFTA ríkjunum m.a. boðið að taka undir yfirlýsingar Ráðherraráðs ESB á sviði utanríkis- og öryggismála (Common Foreign and Security Policy Statements - CFSP), svo og ræður hjá alþjóðastofnunum. 

Ráð ESB samþykkti öryggismálaáætlun 12. desember 2003 (European Security Strategy). Þar eru greindar helstu hættur sem steðja að ESB, þ.e. hryðjuverk, útbreiðsla gereyðingarvopna, svæðisbundin átök, hrun ríkja og skipulögð glæpastarfsemi. Við sama tækifæri samþykkti Ráðið viðbragðsáætlun gegn útbreiðslu gereyðingarvopna. Markmið hennar er að koma í veg fyrir, stöðva og, ef hægt er, að koma í veg fyrir hættuleg áform um útbreiðslu gereyðingarvopna. ESB samþykkti viðbragðsáætlun gegn ólögmætri öflun og dreifingu smá- og léttvopna og skotfæra þeirra hinn 16. desember 2005. Þar er sett fram aðgerðaráætlun gegn smá- og léttvopnum, innan ESB sem utan. 

ESB hefur sett starfsreglur um útflutning hergagna sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja. ESB hefur einnig sett reglur um vopnamiðlun og samræmdar reglur um eftirlit með útflutningi hluta sem hafa tvíþætt notagildi, þ.e. bæði hernaðar- og borgaralegt. 

ESB ákveður öryggis- og þvingunaraðgerðir gegn ríkjum og hryðjuverkasamtökum. Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja flestum þeirra.