Alþjóðamál

Alþjóðamál

Í utanríkisráðuneytinu er fjallað um fjölbreytt svið hnattrænna málefna sem varða hag lands og þjóðar bæði með beinum og óbeinum hætti. Sem sjálfstætt og fullvalda ríki hefur Ísland skyldum að gegna í alþjóðasamstarfi, tekur virkan þátt í störfum alþjóðastofnana og á í tvíhliða samskiptum við önnur ríki. Hlutverk utanríkisþjónustunnar er að viðhalda traustum alþjóðatengslum, gæta hagsmuna Íslands í hvívetna og tryggja að rödd Íslands heyrist á alþjóðavettvangi. Með aðild að alþjóðasamningum, alþjóðlegu regluverki og dómstólum, tekst Ísland á hendur ýmsar skyldur, en nýtur jafnframt réttinda sem skipt geta miklu um þjóðarhag.

Utanríkisstefnan byggist á grundvallargildum um frið, lýðræði, mannréttindi og kvenfrelsi og baráttu gegn fátækt, misskiptingu og félagslegu ranglæti. Stjórnvöld láta mjög til sín taka á sviði mannréttinda og hafa í auknum mæli sett kynjajafnrétti, réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks á oddinn í málflutningi alþjóðlega.

Í auðlinda- og umhverfismálum fer saman mikilvægi þess að verja rétt Íslands til auðlindanýtingar með sjálfbærum hætti og ábyrg stefna í loftslagsmálum og umhverfisvernd. Orkuöryggi er vaxandi umfjöllunarefni í alþjóðastarfi og er orkuöflun, kaup og sala, mikilvægt málefni í samskiptum ríkja. Vaxandi eftirspurn er eftir því alþjóðlega að Íslendingar miðli af þekkingu sinni og reynslu á sviði orkumála, sérstaklega hvað varðar jarðhitanýtingu.