Orkumál

Orkumál

Hlutur orkumála á alþjóðavettvangi hefur vaxið mjög á síðari árum. Orkumál eru ekki einkamál einstakra ríkja heldur alþjóðlegt viðfangsefni sem krefst alþjóðlegra lausna. Vísbendingar eru um að olíuframleiðsla í heiminum hafi jafnvel náð hámarki og verði ekki aukin frekar. Jafnframt hefur vaxandi meðvitund um áhrif losunar gróðurhúsalofttegunda úr orkuiðnaði knúið alþjóðasamfélagið til að leita nýrra orkugjafa og orkutækni sem leyst geti jarðefnaeldsneyti af hólmi. Orkumálin hafa þannig færst inn á svið utanríkismála og sinnir utanríkisráðuneytið þeim í samvinnu við ráðuneyti iðnaðar- og umhverfismála.

Ísland tekur þátt í alþjóðlegu samstarfi um orkumál með það fyrir augum að koma upplýsingum um sérstöðu Íslands á sviði orkumála á framfæri og miðla af reynslu sinni. Ísland nýtur sérstöðu á alþjóðavettvangi á sviði orkumála, ekki síst vegna auðugra endurnýjanlegra orkulinda sinna. Til samans byggjast 72% af heildarorkunotkun landsmanna á endurnýjanlegum orkugjöfum. Um 87% af öllum húsum í landinu eru hituð með beinni nýtingu jarðvarma.

Fjölþjóðlegt jarðhitasamstarf

Unnið er að þátttöku Íslands í þeim alþjóðasjóðum og -stofnunum sem fyrir eru eða stofnuð verða til að standa fyrir fjárfestingum í loftslagsvænni orkutækni, einkum vatnsafls og jarðhitatækni. Samstarf við Alþjóðabankann og stofnanir hans á sviði þróunar með hreinum og endurnýjanlegum orkulindum verður eflt og í skoðun er stofnun sérstaks samstarfsvettvangs Íslands, Bandaríkjanna og nokkurra annarra leiðandi ríkja á sviði jarðhita. Þá auðlind er að finna í nær eitt hundrað ríkjum heims. Nýting jarðhita getur orðið eitt helsta framlag Íslendinga til að hrinda af stað efnahagslegri þróun í löndum, þar sem nú ríkir skortur og örbirgð, og jafnframt veigamikið framlag til að bregðast við loftslagsbreytingum.

Útgefið efni