Viðskiptaþjónusta

Viðskiptaþjónusta og ferðamál

Þjónusta við fyrirtæki, ferðaþjónustu og menningarlíf

Utanríkisþjónustan gætir hagsmuna atvinnulífsins á ýmsan máta. Hún gætir hagsmuna íslenskra fyrirtækja við rekstur EES-samningsins, á vettvangi Evrópusamvinnunnar, gerir fríverslunar- , tvísköttunar- og fjárfestingasamninga við önnur ríki og gætir hagsmuna íslensks atvinnulífs innan fjölþjóðastofnana.

Hlutverk viðskiptaþjónustunnar er m.a. að sinna þjónustu við og styrkja samkeppnisstöðu og árangur íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum, sinna kynningu á Íslandi sem áfangastað ferðamanna og stýra samstarfi utanríkisþjónustunnar við íslenska aðila á sviði menningar, kynningar og viðskipta.

Allar sendiskrifstofur Íslands erlendis sinna viðskiptaþjónustu, ferðamálum og menningarkynningu. Sérstakir viðskipta- og ferðamálafulltrúar eru við störf í stærri sendiráðum Íslands sem liðsinna íslenskum fyrirtækjum erlendis í nánu samstarfi með Íslandsstofu, Viðskiptaráði, Fjárfestingastofu og öðrum hlutaðeigandi stofnunum og hagsmunasamtökum í því augnamiði að stilla saman strengi allra þeirra sem starfa að viðskiptum, ferðamálum og menningarkynningu á erlendri grundu.