Hoppa yfir valmynd

Norðurslóðir og Norðurskautsráðið

Norðurslóðastarf Íslands

Málefni norðurslóða hafa verið eitt af áherslumálum ríkisstjórnar Íslands frá árinu 2009. Grundvöllur hagsmunagæslu Íslands á norðurslóðum er norðurslóðastefnan frá 2011 sem endurnýjuð var með einróma samþykki á Alþingi 19. maí 2021.

Utanríkisráðuneytið annast fyrirsvar Íslands gagnvart Norðurskautsráðinu sem samsett er af Norðurlöndunum, Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi. Norðurskautsríkin átta skiptast á um að fara með formennsku í ráðinu tvö ár í senn. Ráðherrafundur ráðsins er haldinn annað hvert vor og þar skiptir formennskan um hendur. Norðmenn leiða ráðið tímabilið 2023-2025. Sjá má áherslur þeirra hér. Nefnd háttsettra embættismanna sinnir daglegum störfum ráðsins og sex vinnuhópar um einstök málefni leiða vísindasamstarf þess. Fastaskrifstofur tveggja vinnuhópa sem annars vegar fara með málefni tengd gróðurfari og dýralífi (CAFF), hins vegar með málefni vernd lífríkis hafsins (PAME), eru staðsettar á Akureyri. Í kringum þá hefur byggst upp öflugur norðurslóðakjarni í bænum. Fjölmargir aðilar koma að norðurslóðasamstarfi á Íslandi og gegnir Utanríkisráðuneytið samræmingarhlutverki milli ráðuneyta og stofnana innanlands um málefni norðurslóða, auk þess að eiga samráð við viðskiptalífið, háskólastofnanir, félagasamtök, Norðurslóðanet Íslands á Akureyri o.fl.

Viðfangsefni Norðurskautsráðsins lúta einkum að umhverfisvernd og sjálfbærri þróun og vega loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra sífellt þyngra í starfi ráðsins, ekki síst í kjölfar Parísarsamningsins. Málefni hafsins á norðurslóðum, sjálfbær orku- og auðlindanýting, félagshagfræðileg þróun, málefni frumbyggja og lífsskilyrði íbúa skipa veigamikinn sess á vettvangi Norðurskautsráðsins og tekur Ísland virkan þátt í öllum störfum ráðsins.

Ísland fór með formennsku í Norðurskautsráðinu árin 2019-2021. Formennskan þótti takast vel og þrátt fyrir að heimsfaraldur setti starfinu þröngar skorður, tókst bæði að semja ráðherrayfirlýsingu og setja ráðinu stefnu til næstu tíu ára. Í sögu ráðsins er þetta fyrsta langtíma stefnan sem það setur sér.

Íslands hefur leitt verkefni um jafnrétti á norðurslóðum (e. Gender Equality in the Arctic) á vettvangi Norðurskautsráðsins frá árinu 2014. Í lok íslenskrar formennsku ráðsins kom út ítarleg skýrsla um stöðu jafnréttismála á norðurslóðum).

Árlegt þing Hringborðs norðurslóða (e. Arctic Circle) sem fyrrverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson kom á fót, hefur frá upphafi (2013) nýst mjög vel til kynningar á verkefnum og til tengslamyndunar meðal vísindamanna, embættismanna og ráðamanna.


Málefni hafsins 

Vinnuhópar Norðurskautsráðsins hafa um árabil unnið mikilvægt starf við að meta ástand hafsins, með tilliti til verndar og nýtingar, og verður því fram haldið…

Loftslagsmál og endurnýjanleg orka

Ummerki um loftslagsbreytingar eru hvergi jafn sýnileg og á norðurslóðum þar sem hækkun hitastigs hefur á síðustu áratugum verið meira en tvöföld á við meðaltalið á heimsvísu…

Fólkið á Norðurslóðum

Varðveita ber hefðbundna þekkingu á staðháttum og verklagi sem erfst hefur kynslóð frá kynslóð. Á sama tíma þarf að grípa tækifæri sem felast meðal annars í tækniþróun og bættum samgöngum til að renna stoðum undir nýsköpun og fjölbreytta atvinnuvegi, með sjálfbærni samfélaga að leiðarljósi…

Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu 2019-2021

„Saman til sjálfbærni á norðurslóðum“ er heiti á formennskuáætlun Íslands í Norðurskautsráðinu til 2021.

Hvað er Norðurskautsráðið?

Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 sem vettvangur samstarfs um sjálfbæra þróun á norðurslóðum, með virkri þátttöku frumbyggja á svæðinu. Aðildarríki ráðsins eru átta: Bandaríkin, Finnland, Ísland, Kanada, Konungsríkið Danmörk, Noregur, Rússland og Svíþjóð…

Sendinefnd Íslands í Norðurskautsráðinu Formennskuteymið

Hafðu samband: arctic [hjá] utn.is

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum