Vopnaviðskiptasamningurinn

Vopnaviðskiptasamningurinn (ATT)

Vopnaviðskiptasamningurinn (e. Arms Trade Treaty - ATT), var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 2. apríl 2013. Ísland undirritaði samninginn í New York hinn 3. júní 2013 og varð fyrsta ríkið til að fullgilda hann hinn 2. júlí 2013. Samningurinn tók gildi 24. desember 2014. Skrifstofa samningsins er í Genf.

Samningurinn er sá fyrsti sinnar tegundar. Hann fjallar um eftirlit með útflutningi hefðbundinna vopna til þess að auka alþjóðlegt öryggi og skapa vernd gegn brotum á mannréttindum og á sviði mannúðarmála. Hann mun torvelda að vopn lendi í höndum ólögmætra herja, hryðjuverkamanna eða glæpasamtaka. Ísland, ásamt hinum norrænu ríkjunum, beitti sér mjög fyrir því að samningurinn yrði gerður og tók virkan þátt í samningsgerðinni. Hún var kröftuglega studd af frjálsum félagasamtökum, svo sem Rauða krossinum og Amnesty International.  

Íslenska sendinefndin náði góðum árangri á lokaráðstefnu vegna samningsgerðarinnar í New York í mars sl. Með góðum stuðningi hinna norrænu ríkjanna og annarra líkt þenkjandi ríkja tókst Íslandi að fá samþykkt í samningstextann ákvæði sem skyldar aðildarríkin til að taka tillit til hættunnar á kynbundnu ofbeldi þegar ákvarðanir eru teknar um vopnaútflutning.

Samningurinn kveður á um að sérhvert aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til þess að framfylgja lögum sínum og reglugerðum sem innleiða ákvæði samningsins. Helstu ákvæðin sem við eiga eru 5. - 11. gr. þ.e. eftirlit með útflutningi, innflutningi, gegnumferð, umfermingu og miðlun vopna, skotfæra og íhluta. Samningurinn verður framkvæmdur á grundvelli laga um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 58/2010. Önnur lög sem geta átt við um framkvæmd samningsins eru vopnalög nr. 16/1998, lög um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008 og tollalög nr. 88/2005. 

Fréttir

Tenglar

ATT Secretariat

ATT - Arms Trade (UN)

 


  Uppfært: 09/13     |     Athugsemdir sendist  hér     |      Skammstafanir