Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (International Criminal Court - ICC), sem byggir á svokallaðri Rómarsamþykkt, er fyrsti varanlegi alþjóðlegi sakamáladómstóllinn sem stofnaður hefur verið til þess að taka á alvarlegum brotum sem varða alþjóðasamfélagið.

ICC er sjálfstæð alþjóðastofnun sem er ekki hluti af Sameinuðu þjóðunum. Aðalstöðvar eru í Haag í Niðurlöndum. Hann er fjármagnaður bæði af aðildarríkjum stofnsamningsins og frjálsum framlögum frá ríkjum, alþjóðastofnunum, einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum aðilum.

Alþjóðasamfélagið hefur lengi viljað skapa varanlegan sakamáladómstól. Það náði samkomulagi á 20. öld um skilgreiningar á þjóðarmorði, brotum gegn mannkyni og stríðsglæpum. Núrenberg- og Tókýó-dómstólarnir fjölluðu um slík brot. Á 10. áratug síðustu aldar, eftir lok Kalda stríðsins, voru stofnaðir Alþjóðlegir sakamáladómstólar fyrir fyrrum Júgóslavíu og fyrir Rúana, en umboð þeirra var bundið við tiltekið tímabil og tiltekin stríð. Sú skoðun varð ofan á að stofna þyrfti varanlegan sakamáladómstól. 

Hinn 17. júlí 1998 náðist samkomulag 120 ríkja um Rómarsamþykktina, stofnskjal Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Hún tók gildi 1. júlí 2002 þegar 60 ríki höfðu fullgilt hana. Ísland varð tíunda ríkið til þess að fullgilda samþykktina. 

Aðildarríkjum Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn hefur fjölgað að undanförnu og voru þau 114 talsins 15. mars 2011. 

Endurskoðunarráðstefna Rómarsamþykktarinnar var haldin í Kampala, Úganda í júní 2010.  Um eitt hundrað aðildarríki sóttu ráðstefnuna, auk fjölda félagasamtaka, en fulltrúar á ráðstefnunni voru samtals um 4600. Markverðasta niðurstaða ráðstefnunnar var án efa sú að samkomulag varð um breytingu á samningnum, sem gerir dómstólnum kleift að lögsækja einstaklinga fyrir árásarglæpi eða glæpi gegn friði (e. crimes of aggression). Lögsaga dómstólsins að því er árásarglæpi varðar kemur þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2017 og því aðeins að 30 aðildarríki hafi þá fullgilt breytinguna. Ríki sem ekki eru aðilar að Rómarsamþykktinni eru undanþegin lögsögu dómstólsins vegna þessara glæpa, en njóta heldur ekki verndar samningsins ef á þau er ráðist.

Samkvæmt niðurstöðu Kampala-ráðstefnunnar getur öryggisráð SÞ ákveðið, með vísan til VII. kafla stofnsáttmála SÞ, að vísa tilvikum þar sem einstaklingar eru taldir hafa gerst sekir um árásarglæp til Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Sé talið að glæpur af þessu tagi hafi átt sér stað, en öryggisráðið kýs að aðhafast ekki, getur saksóknari leitað heimildar dómstólsins til að hefja rannsókn. Óski öryggisráðið að koma í veg fyrir að rannsóknin nái fram að ganga getur það hins vegar stöðvað hana í krafti skuldbindandi ályktunar. Slík málamiðlun var nauðsynleg til þess að ríki með föst sæti í öryggisráðinu, þ.á m. ríki sem ekki hafa gerst aðilar að Rómarsamþykktinni, gætu fallist á niðurstöðuna.

Ítarefni


Uppfært: 12/15     |     Athugsemdir sendist  hér