Viðbrögð við ákvörðun Breta um úrsögn úr ESB

24.6.2016

Ríkisstjórn Íslands ræddi á fundi sínum í morgun þá ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu.

Bretland er eitt mikilvægasta viðskiptaland Íslands og grundvallast samskiptin á EES-samningnum. Löndin vinna náið saman á ýmsum sviðum, t.d. að löggæslu-, samgöngu-, búsetu- og menningarmálum. Þá er gott samstarf milli Íslands og Bretlands á sviði öryggis- og varnarmála. Því er mikilvægt að tryggja áfram góð samskipti landanna. 

Í ljósi þess ákvað ríkisstjórnin að utanríkisráðherra tæki málið upp á ráðherrafundi EFTA í Sviss á sunnudaginn. Þar verði áhersla lögð á mikilvægi þess að EFTA-ríkin njóti áfram jafn góðra viðskiptakjara gagnvart Bretlandi og nú. Samhliða þessu mun utanríkisráðuneytið kanna aðrar leiðir að sama markmiði fyrir Ísland, þ.m.t. möguleikann á gerð tvíhliða efnahags- og viðskiptasamnings milli Íslands og Bretlands. Einnig er verið að skoða hvernig hagsmunir Íslands verði best tryggðir í framhaldi af útgöngusamningi sem Bretland og Evrópusambandið munu væntanlega gera.

Þá hefur starfshópur ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis, utanríkisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og velferðaráðuneytis verið skipaður til að samræma viðbrögð og aðgerðir. Hópurinn mun vinna með öðrum ráðuneytum og hagsmunaaðilum eftir þörfum. Utanríkisráðuneytið mun einnig fela óháðum aðila að meta efnahagslegar afleiðingar einstakra kosta varðandi framtíðarviðskipti milli þjóðanna.

„Við viljum áframhaldandi gott samstarf við Bretland og höfum þegar átt gott samtal við breska sendiherrann, þar sem við greindum frá þeim vilja okkar. Breska þjóðin hefur talað og ljóst að framundan eru breytingar á samstarfi Evrópuríkjanna, sem geta skapað tækifæri til aukinnar samvinnu,” segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra.

Ljóst er að vinna við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu er rétt að hefjast. Ekki verða breytingar á viðskiptasamningum eða öðrum samskiptum Íslands og Bretlands á meðan sú vinna er í gangi.

Spurt og svarað um úrsögn Breta úr ESB

Samantekt um möguleg áhrif úrsagnar Bretlands úr ESB

Til baka Senda grein