Upplýsingablað um mútubrot

17.2.2016

Utanríkisráðuneytið, í samvinnu við innanríkisráðuneytið, hefur í ljósi aukinnar áherslu á baráttu gegn mútum í alþjóðlegum viðskiptum sent upplýsingablað um erlend mútubrot til sendiráða Íslands og sendiskrifstofa. Í upplýsingablaðinu er vakin athygli á samningi OECD sem Ísland er aðili að, um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna . Í samningnum er undirstrikað að mútur grafi undan góðum stjórnarháttum og efnahagsþróun auk þess að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. 

Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að fylgja eftir ákvæðum alþjóðasamninga en það er einnig hagur fyrirtækja og einstaklinga að fá vitneskju um gildandi lög, hvernig þau geta sinnt mikilvægri upplýsingaskyldu og almennt stundað góða viðskiptahætti. Fulltrúar fyrirtækja eða aðrir sem verða varir við mútubrot erlendis geta upplýst sendiskrifstofur Íslands um málið og einnig haft samband við lögreglu hér á landi. Ábendingum eða fyrirspurnum ber að beina til embættis héraðssaksóknara sem fer með rannsókn á efnahagsbrotum.

Upplýsingablað um mútubrot

Til baka Senda grein