Ráðherra fundar með Ban Ki-moon

19.9.2016

  • Lilja Alfreðsdóttir og Ban Ki-moon.

Jafnréttismál, staða flóttamanna og umhverfismál voru meðal þess sem Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Ban Ki-moon,  framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ræddu á fundi sínum í höfuðstöðvum SÞ seinnipartinn í gær. Umræður  á allsherjarþingi  SÞ hefjast á morgun en það sækja margir helstu ráðamenn heims til að ræða brýnustu áskoranir alþjóðasamfélagsins, og því mikið um að vera í höfuðstöðvunum þessa vikuna.

Ban Ki-moon færði  Íslendingum sérstakar þakkir fyrir að tala fyrir jafnréttismálum og leggja SÞ lið í því mikilvæga verkefni.  

Lilja upplýsti hann um þingsályktunartillögur um fullgildingu Íslands á Parísarsamkomulaginu og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hún lagði fyrir Alþingi fyrr í mánuðinum. Báðar tillögurnar verða teknar til síðari umræðu á Alþingi í dag. 

Þá ræddu þau norðurslóðamál og loftslagsmál sem Ban Ki-moon hefur látið sig miklu varða. Þau verða meðal þess sem rætt verður á Hringborði Norðurslóða í byrjun október í Reykjavík en framkvæmdastjórinn er væntanlegur til Íslands, m.a.  til að taka þátt í því. 

Til baka Senda grein