Parísarsamningurinn fyrir Alþingi

31.8.2016

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra mun á næstunni leggja þingsályktunartillögu um fullgildingu Parísarsamningsins í loftslagsmálum fyrir Alþingi. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynnti tillögu þess efnis í ríkisstjórn í gær fyrir hönd utanríkisráðherra. Samningurinn verður lagður fyrir Alþingi ásamt þingsályktunartillögu um heimild fyrir ríkisstjórnina að fullgilda hann.

Parísarsamningurinn var samþykktur í desember 2015 á þingi aðila að loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Um er að ræða sögulegan samning um samvinnu í baráttunni við loftslagsbreytingar þar sem í fyrsta sinn er gengið út frá því að öll ríki taki virkan þátt í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Parísarsamningurinn myndar ramma utan um skuldbindingar sem ríkin hafa sjálfviljug sett fram með það að markmiði að halda hækkun hitastigs jarðar undir 2°C miðað við meðalhitastig jarðar fyrir iðnvæðingu. Jafnframt skuli leita leiða til þess að halda hækkun hitastigs undir 1,5°C. Samningurinn mun hafa áhrif á markmið Íslands í loftslagsmálum, en hefur ekki að geyma bein ákvæði um tölulegar skuldbindingar einstakra ríkja.  Ísland lagði fram áætlað framlag sitt í júní 2015 eftir samþykkt þess efnis í ríkisstjórn. Þar kemur fram að stefnt sé að því í samstarfi við aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) að ná 40% samdrætti í losun árið 2030 miðað við útblástur árið 1990.

Að auki tekur samningurinn m.a. til aðlögunar að loftslagsbreytingum, stuðnings þróaðra ríkja við þróunarlönd, upptöku og varðveislu kolefnis í skógum og öðrum viðtökum og gegnsæi. Hvert ríki skal halda traust bókhald og gefa reglulega upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda. Gert er ráð fyrir að landsákvörðuð framlög séu uppfærð á fimm ára fresti þannig að þau verði sífellt metnaðarfyllri og í samræmi við niðurstöður og leiðsögn vísinda, í því skyni að ná markmiðum um að halda hækkun hitastigs innan tiltekinna marka.

Samningurinn tekur gildi þegar a.m.k. 55 ríki með 55% af heimslosun hafa fullgilt hann. Nú hafa yfir 20 ríki fullgilt Parísarsamninginn.  Vonast er til að Ísland geti fullgilt samninginn sem fyrst og stuðlað þannig að gildistöku samningsins á heimsvísu. 

Til baka Senda grein