Óskað eftir styrkumsóknum vegna mannúðarverkefna

30.3.2016

  • Flóð í Malaví

Utanríkisráðuneytið óskar eftir styrkumsóknum frá íslenskum borgarasamtökum vegna mannúðarverkefna í Sýrlandi og annars staðar þar sem þörfin er mikil. Til ráðstöfunar að þessu sinni verða samtals allt að 90 milljónir króna. Umsóknarfrestur er til og með 20. apríl 2016.

Ákveðið hefur verið að veita 50 milljónir króna til slíkra verkefna í Sýrlandi og til að bregðast við neyð flóttamanna sem hafa flúið þaðan. Þessir fjármunir eru hluti af sérstöku framlagi ríkisstjórnarinnar vegna viðbragða við flóttamannavandanum sem hefur skapast vegna átakanna í Sýrlandi. Að auki mun utanríkisráðuneytið veita allt að 40 milljónum króna til mannúðarverkefna borgarasamtaka, hvort heldur sem er til verkefna tengdum ástandinu í Sýrlandi eða annars staðar í heiminum þar sem er brýn þörf er á mannúðaraðstoð. Þess skal getið að þessi úthlutun er sú fyrri af tveimur sem gert er ráð fyrir að verði á styrkjum til mannúðarverkefna borgarasamtaka og verður sú seinni auglýst síðar á árinu.

Við þessar styrkúthlutanir verður farið eftir verklagsreglum utanríkisráðuneytisins um samstarf við borgarasamtök frá 2015. Í reglunum er að finna vinnulag og önnur viðmið sem notuð eru við mat á umsóknum auk skilyrða sem borgarasamtök verða að uppfylla til að geta sótt um styrki. Horft er til gæða og árangurs verkefna. Litið er á skilvirkni og kröfur gerðar um vönduð og fagleg vinnubrögð, sem eru lykilatriði við ákvarðanatöku um framlög. Verklagsreglurnar byggjast m.a. á alþjóðlegri stefnu og starfsaðferðum við styrkveitingar úr opinberum sjóðum og stefnumiðum ráðuneytisins í samstarfi við íslensk borgarasamtök í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð 2015-2019. 

Einungis verður tekið við umsóknum sem skilað er inn á þar til gerðum eyðublöðum og sendar eru á netfangið borgarasamtok.styrkir@mfa.is fyrir kl. 23:59 þann 20. apríl 2016. 

 

Nánari upplýsingar um verklagsreglurnar og aðrar hagnýtar upplýsingar  

 

Til baka Senda grein