Öryggismál í Evrópu rædd í Lettlandi

22.4.2016

  • Utanríkisráðherrar Eistlands, Íslands og Svíþjóðar
    Lilja ásamt utanríkisráðherrum Eistlands og Svíþjóðar

Samskiptin við Rússland, flóttamannastraumurinn í Evrópu, orkuöryggi, hryðjuverk og aðrar öryggisógnir voru á meðal umræðuefna utanríkisráðherrafundar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Visegrad-ríkjanna svokölluðu (Ungverjaland, Slóvakía, Tékkland og Pólland), sem Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra tók þátt í og lauk fyrir stundu. Fundurinn fór fram í Lettlandi. 

Utanríkisráðherrarnir ræddu stöðu öryggismála í Evrópu, ekki síst í ljósi átakanna í austurhluta Úkraínu. Þá heldur flóttamannastraumurinn frá átakasvæðum í Sýrlandi og víðar til Evrópu áfram að reyna á innviði og samstarf Evrópuríkja. Ráðherrarnir ræddu einnig hryðjuverkaógnina í Evrópu og fjölluðu um samskipti Atlantshafsbandalagsins og Rússlands, en fyrr í vikunni var fundað á ný í NATO-Rússlandsráðinu eftir tæplega tveggja ára hlé. 

"Þetta var mjög áhugaverður fundur tólf vinaríkja og ánægjulegt að hitta fyrir svo marga samráðherra í minni fyrstu opinberu ferð erlendis sem utanríkisráðherra. Það er ljóst að öryggismálin í Evrópu og flóttamannastraumurinn verða áfram ofarlega á baugi og Ísland mun eftir sem áður freista þess að leggja gott eitt til í nafni samstöðu og samvinnu í þessum flóknu úrlausnarefnum", segir Lilja. Orkuöryggi var eitt af megin umfjöllunarefnum hjá ráðherrunum. Ráðherra vakti athygli á jarðhitanýtingarverkefnum á vegum íslenskra aðila í Mið-Evrópu sem stuðla að bættri orkunýtingu í álfunni með aukinni nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Til baka Senda grein