Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2006 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundar með framkvæmdastjóra UNICEF

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 043

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra átti í dag fund með Ann M. Veneman framkvæmdastjóra Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF).

Á fundinum var meðal annars rætt um samstarf íslenskra stjórnvalda og UNICEF og hvernig það mætti efla enn frekar. Þá fór utanríkisráðherra yfir stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum þróunarsamvinnu en stuðningur Íslands við UNICEF hefur aukist mjög á umliðnum árum samfara aukningu á framlögum Íslands til þróunarsamvinnu.

Ann M. Veneman tók við embætti framkvæmdastjóra UNICEF á síðasta ári, en hún var áður landbúnaðarráðherra Bandaríkjanna.

UNICEF var sett á fót árið 1946. Stofnunin stendur vörð um líf barna í 157 löndum og byggir starf sitt á Þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um þróun, en þau miða meðal annars að því að draga úr fátækt og tíðni ungbarnadauða og auka menntun fyrir árið 2015. Neyðaraðstoð er jafnframt mikilvægur þáttur í starfsemi UNICEF.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum