Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2005 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundur Norðurlandanna


FRÉTTATILKYNNING

frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 25

Utanríkisráðuneyti Norðurlandanna munu í framtíðinni hafa enn nánara samstarf þegar stóráföll eða hamfarir, sem snerta norræna ríkisborgara á erlendri grund ríða yfir. Á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna, sem lauk á Borgundarhólmi í dag, var samþykkt yfirlýsing þess efnis. Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd.

Gripið verður til margs konar ráða til að þétta öryggisnetið sem sendiráð og ræðisskrifstofur Norðurlandanna mynda. Ekkert Norðurlandanna er með sendiskrifstofur eða sendiráð í öllum löndum. En þar sem sendiráðin eru fleiri en eitt munu þau leitast við að stilla saman strengi við gerð aðgerðaáætlana til að mæta stóráföllum, einkum þar sem gera má ráð fyrir að margir Norðurlandabúar dvelji um lengri eða skemmri tíma, til dæmis á fjölförnum ferðamannastöðum. Sameinast verður um skráningu, heimflutning, stöðumat og annað þess háttar. Þar sem er aðeins eitt norrænt sendiráð mun það sinna ríkisborgurum allra Norðurlanda.

Á Borgundarhólmi var einnig fundur utanríkisráðherra Eystrasaltsríkjanna og Norðurlandanna. Fundarefnin voru mörg, til dæmis þáttur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í samstarfi við ríki í Austur-Evrópu og Mið-Asíu og mikilvægi þess fyrir framgang lýðræðis og baráttuna gegn hryðjuverkum.

Fjallað var um umbætur í Sameinuðu þjóðunum, þar á meðal undirbúning leiðtogafundarins í næsta mánuði, og hafði Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, framsögu um þetta efni.

Utanríkisráðuneytið

Reykjavík, 26. ágúst 2005.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum