Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 1996 Utanríkisráðuneytið

Fiskveiðisamningar við Færeyjar

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 008



Í gær var í viðræðum íslenskra og færeyskra embættismanna gengið frá efnisatriðum tveggja samninga um samvinnu Íslands
og Færeyja í fiskveiðimálum á árinu 1996. Búist er við því að í næstu viku verði gengið formlega frá samningunum með
bréfaskiptum milli Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, og Edmund Joensen, lögmanns Færeyja. Annars vegar er um
að ræða samning um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum og hins vegar samning um veiðar á loðnu, kolmunna, makríl
og síld annarri en norsk-íslenskri innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

Samkvæmt samningnum um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verður hámarks-afli íslenskra skipa á þessu ári
244.000 lestir, en hámarksafli færeyskra skipa 86.000 lestir.

Í formála samningsins er vísað til þeirra samningaviðræðna sem átt hafa sér stað um stjórn veiða úr norsk-íslenska
síldarstofninum milli viðkomandi strandríkja, Færeyja, Íslands, Noregs og Rússlands. Bent er á að í þessum viðræðum hafi
af hálfu Íslands og Færeyja verið lögð áhersla á að skipting veiðiheimilda úr stofninum til langs tíma taki mið af sögulegri
dreifingu stofnsins eins og hún kemur fram í skýrslu sem vísindamenn landanna fjögurra hafa tekið saman, enda sé við því
að búast að stofninn taki aftur upp sitt fyrra göngumynstur. Tekið er mið af því að ekki hafi enn náðst samkomulag í
þessum viðræðum, hvorki um langtíma skiptingu veiðiheimilda úr stofninum né um fyrirkomulag veiða á árinu 1996. Telja
aðilar því rétt að gerðar séu ráðstafanir til þess að tryggja að veiðar færeyskra og íslenskra skipa úr stofninum verði
stundaðar á ábyrgan hátt, en ekki er ætlunin með samningnum að útiloka frekari viðræður við Rússa og Norðmenn í því
skyni að ná samkomulagi strandríkjanna fjögurra um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Samningurinn gerir ráð fyrir gagnkvæmum aðgangi skipa hvors aðila að lögsögu hins, en heimilt er að takmarka fjölda
íslenskra skipa sem stunda veiðar samtímis innan lögsögu Færeyja við 25 skip og fjölda færeyskra skipa sem stunda veiðar
samtímis innan lögsögu Íslands við 8 skip til að tryggja skipulegar veiðar.

Samkvæmt hinum samningnum verður færeyskum nótaskipum veitt heimild til veiða á allt að 30 þúsund lestum af loðnu
innan íslenskrar lögsögu sem skiptist þannig að veiða má allt að 10 þúsund lestir á tímabilinu febrúar til maí á þessu ári og
allt að 20 þúsund lestir á tímabilinu júlí til desember á þessu ári. Gert er ráð fyrir því að heimilt verði að landa aflanum til
vinnslu á Íslandi, en að óheimilt verði að vinna eða frysta afla sem veiddur er á fyrra tímabilinu um borð og að utan Íslands
verði einungis heimilt að landa þeim afla til bræðslu.

Samningurinn gerir enn fremur ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til kolmunnaveiða innan lögsögu hins á þessu
ári.

Loks munu íslensk skip samkvæmt samningnum fá heimild til veiða á allt að 1.000 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld
annarri en norsk-íslenskri síld innan færeyskrar lögsögu á þessu ári.

Í byrjun janúar sl. var ákveðið á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands
að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.000 lestir af botnfiski við Ísland á árinu 1996.



Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 2. febrúar 1996

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum