Hoppa yfir valmynd
22. maí 1996 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur OECD 1996 í París

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
_____________


Nr. 043



Dagana 21.-22. maí var haldinn í París árlegur ráðherrafundur Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD.
Fundinn sátu utanríkis- og viðskiptaráðherrar sem og efnahags- og fjármálaráðherrar aðildarríkja stofnunarinnar. Af Íslands
hálfu sat Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fundinn.

Efni fundarins var þríþætt, þ.e. efnahags- og atvinnumál, alþjóðaviðskipti og framtíðarhlutverk OECD.

Í umræðum um efnahagsmál varð fundarmönnum tíðrætt um aukið atvinnuleysi og fjallað var sérstaklega um aðgerðir til að
auka atvinnu. Nauðsynlegt er talið að beita áfram aðhaldi í ríkisrekstri og að aðgerðir til atvinnusköpunar raski ekki þeim
stöðugleika sem þegar hefur náðst í efnahagsmálum. Sú skoðun kom fram að nauðsynlegt sé að einfalda samskiptareglur á
vinnumarkaði og að aukinn sveigjanleiki, m.a. í vöru- og þjónustuviðskiptum, sé forsenda hagvaxtar. Þá var rætt um
mikilvægi starfsþjálfunar og endurmenntunar starfsfólks til að gera því kleift að takast á við ný verkefni með nýrri tækni.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði áherslu á þátt smærri og meðalstórra fyrirtækja í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu og
að bæta þurfi skilyrði slíkra fyrirtækja til að nýta nýja tækni og ný tækifæri sem aukin alþjóðavæðing býður upp á.

Í ræðu sinni um alþjóðaviðskipti undirstrikaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra mikilvægi þess að Alþjóðaviðskiptastofnunin,
WTO, stuðli að auknu frelsi í alþjóðlegum viðskiptum. Aukið vægi WTO í því starfi leiði jafnframt til þess að OECD þurfi í
vaxandi mæli að starfa að sérhæfðum málaflokkum, m.a. varðandi fjárfestingar. Jafnframt lagði iðnaðar- og
viðskiptaráðherra áherslu á að aðildarríkjum OECD takist að ljúka við gerð fjölþjóðlegs fjárfestingarsamnings innan eins
árs. Slíkur samningur ætti að veita sem mesta fjárfestingarvernd og tryggja frelsi til fjárfestinga milli ríkja sem greiddi fyrir
atvinnusköpun í aðildarríkjunum. Samningur sem m.a. fjallar um beitingu beinna fjárfestingastyrkja myndi styrkja stöðu
Íslands við að laða að erlent fjármagn til atvinnuuppbyggingar.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði áherslu á að OECD gegndi áfram mikilvægu hlutverki sem umræðuvettvangur um
stefnumótun á ýmsum sviðum efnahags- og viðskiptamála. Ráðherrar voru almennt sammála um að skilgreina þurfi vel þau
verkefni sem stofnunin sinnir til að koma í veg fyrir tvíverknað. Í þessu sambandi væri rétt að fylgjast grannt með þróun
mála innan annarra alþjóðastofnana, þ.m.t. WTO, á næstu misserum. Að lokum taldi iðnaðar- og viðskiptaráðherra rétt að
flýta sér hægt varðandi fjölgun aðildarríkja OECD en ítrekaði jafnframt nauðsyn þess að hafa áfram góða samvinnu við ríki
utan samtakanna.



Utanríkisráðuneytið,
Reykjavík, 22. maí 1996

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum