Hoppa yfir valmynd
24. apríl 1999 Utanríkisráðuneytið

Nr. 033, 24. apríl 1999: Leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins í Washington D.C.

Fréttatilkynning
frá utanríkisráðuneytinu


Nr. 033

Leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins var framhaldið í morgun, 24. apríl 1999, í Washington. Davíð Oddsson, forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra sátu fundinn fyrir Íslands hönd. Síðdegis var einnig haldinn leiðtogafundur Samstarfsnefndar NATO og Úkraníu. Á morgun eru fyrirhugaðir fundir Norður-Atlantshafsráðsins með nágrannaríkjum Kosovo-héraðs og leiðtogafundur Evró-Atlantshafsráðsins.
Leiðtogarnir lýstu yfir von um að endurskoðuð öryggismálastefna bandalagsins, sem felur í sér aðlögun hefðbundinna markmiða og verkefna bandalagsins, yrði árangursrík. Hin endurskoðaða öryggismálastefna kveður m.a. á um að bandalagið geti brugðist við þeim nýju hættum sem ógnað geta ríkjum Evró-Atlantshafssvæðisins, auk þess að sinna hefðbundnum skyldum um að tryggja varnir aðildarríkja bandalagsins.
Leiðtogarnir voru sammála um að innganga Póllands, Tékklands og Ungverjalands markaði upphaf stækkunarferlis bandalagsins, en í hjálagðri yfirlýsingu leiðtogafundarins eru nafngreind þau ríki sem bandalagið hefur ákveðið að vinna með nánar innan sérstakrar aðgerðaráætlunar umsóknarríkja á næstu misserum.
Í ávarpi sínu lagði forsætisráðherra Íslands, Davíð Oddsson, sérstaka áherslu á þann þátt yfirlýsingarinnar sem kveður á um að sérhverju ríki væri í sjálfsvald sett að ákveða eigin varnar- og öryggismálastefnu og að ekki bæri að láta landfræðilega stöðu ríkja hafa áhrif á það hvort og hvenær boð um aðildarviðræður berst. Í þessu samhengi minntist forsætisráðherrann sérstaklega á Eystrasaltsríkin og lýsti yfir stuðningi Íslands við að þau yrðu á meðal þeirra ríkja sem næst yrði boðið aðild að bandalaginu. Í ávarpi sínu lagði forsætisráðherra einnig áherslu á nauðsyn þess að efling Evrópusamstarfs í öryggis- og varnarmálum (ESDI) tryggði hagsmuni allra Evrópuríkja, einnig þeirra ríkja sem standa utan Evrópusambandsins.

Hjálagt fylgir yfirlýsing leiðtogafundarins.

Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 24. apríl 1999.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum