Mikilvægt að viðhalda samtali

30.3.2017

  • Guðlaugur Þór og Sergei Lavrov

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í gærkvöldi fund með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Danmerkur. Á fundi ráðherranna voru samskiptin við Rússland, samvinna á norðurslóðum, öryggismál og helstu álitamál á alþjóðavettvangi til umfjöllunar.

Ráðherrarnir ræddu samstarf ríkjanna innan Norðurskautsráðsins, sem Ísland tekur við formennsku í árið 2019 og Eystrasaltsráðsins, sem Ísland leiðir nú, en stefnt er að ráðherrafundi þess í Reykjavík í sumar. Gott samstarf er á mörgum málefnasviðum er varðar norðurslóðir og lögðu ráðherrarnir áherslu á að svo yrði áfram.

Ýmis alþjóðamál voru til umræðu á fundinum, meðal annars ástandið í Sýrlandi og Mið-Austurlöndum, svo og í Úkraínu og Tyrklandi. Hvöttu norrænu ráðherrarnir rússnesk stjórnvöld til þess að beita áhrifum sínum til að koma á varanlegu vopnahléi í austurhluta Úkraínu. Þá ræddu ráðherrarnir öryggismál og mannréttindi.

"Okkur greinir viða á, meðal annars í málefnum Úkraínu og Sýrlands, og í mannréttindamálum. Engu að síður er mikilvægt að viðhalda samtali og freista þess að miðla málum og leysa úr ágreiningsefnum. Á ýmsum öðrum sviðum, líkt og í málefnum norðurslóða, er samstarf hins vegar með ágætum og mikilvægt að hlúa áfram að því," segir Guðlaugur Þór.

Til baka Senda grein