Landgræðsluskólinn útskrifar ellefu sérfræðinga

15.9.2016

  • Útskriftarhópurinn 2016
    Útskriftarhópurinn 2016

Í gær útskrifuðust ellefu sérfræðingar úr sex mánaða námi við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, fimm konur og sex karlar. Nemendurnir komu að þessu sinni frá Gana, Kirgistan, Lesótó, Malaví, Mongólíu, Níger og Úganda.
Þetta var í fyrsta sinn sem nemendur frá Lesótó stunda nám við skólann en alls hafa nú tólf ríki tekið þátt í samstarfi við skólann. Þessi útskriftarárgangur er sá tíundi frá upphafi starfseminnar árið 2007 og útskrifaðir nemendur frá skólanum eru orðnir 87 talsins.
Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri áréttaði sameiginlega ábyrgð alþjóðasamfélagsins í baráttunni gegn landhnignun og við endurheimt landgæða í ávarpi við útskriftina. Hann greindi frá reynslu Íslendinga við uppbyggingu ræktanlegs lands og sagði enga skjóta sigra unna í þeim efnum. „Endurheimt lands og landgræðsla er meðal áhrifaríkustu aðgerða sem við getum unnið að til að bæta matvælaöryggi, uppræta fátækt, styrkja konur og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga,“ sagði Stefán Haukur og hvatti útskriftarnemendur til að nýta reynsluna úr náminu í Landgræðsluskólanum til að eiga frumkvæði að verkefnum til sjálfbærrar þróunar í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Á Íslandi starfa fjórir skólar undir hatti Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ). Auk Landgræðsluskólans er það Jarðhitaskóli HSÞ, Sjávarútvegsskóli HSÞ og Jafnréttisskóli HSÞ. Skólarnir fjórir eru hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.
Ávarp ráðuneytisstjóra

Til baka Senda grein