Jafnrétti og endurnýjanleg orka rædd á fundi með forseta Innviðafjárfestingabanka Asíu

10.9.2016

  • Lilja Alfreðsdóttir og Jin Liqun.

 

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra átti í gær fund með Jin Liqun, bankastjóra Innviðafjárfestingabanka Asíu (AIIB), sem formlega tók til starfa í janúar 2016. Ísland hefur verið aðili að bankanum frá upphafi. 

Á fundinum var m.a. rætt um starfsemi bankans fyrstu mánuðina, hlutverk hans í tengslum við aðra þróunarbanka og stefnumótunarstarfið sem átt hefur sér stað á þessum tíma. Þá ræddu þau sérstaklega um málefni sem Ísland leggur áherslu á, s.s. jafnrétti kynjanna og endurnýjanlega orku. Mögulegt samstarf íslenskra fyrirtækja og stofnana við bankann voru ofarlega á baugi, en í fundinum tóku einnig m.a. þátt fulltrúar stofnana og fyrirtækja á sviði orkumála.

Bankinn, sem er fjölþjóðlegur þróunarbanki, hefur það meginhlutverk að styðja við aðgerðir til að efla innviði í Asíu, en það er einmitt sá heimshluti þar sem hagvöxtur er hvað mestur. Sú þróun kallar m.a. á stóraukna uppbyggingu innviða, en fyrir liggur að í álfunni þarf að eiga sér stað gríðarleg uppbygging samgöngukerfa, orkukerfa, fjarskiptakerfa o.fl. Er almennt talið að uppbyggingin sé af slíkri stærðargráðu að bankar eins og Alþjóðbankinn og Þróunarbanki Asíu séu einir og sér ekki nægilega sterkir til að ráða við slík verkefni. Starfsemi Innviðafjárfestingabanka Asíu getur því stutt við starfsemi annarra fjölþjóðlegra þróunarbanka sem þegar sinna fjármögnun innviðauppbyggingar í þessum heimshluta.

 

Til baka Senda grein