Ísland styður aðild Færeyja að EFTA

22.8.2016

  • Lilja Alfreðsdóttir og Poul Michelsen
    Lilja Alfreðsdóttir og Poul Michelsen

Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, lýsti yfir eindregnum stuðningi við aðild Færeyja að EFTA - fríverslunarsamtökum Evrópu - á fundi með Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja í dag. Færeyingar hafa formlega óskað eftir aðild að EFTA og var umsóknin til umræðu á fundi EFTA-ríkjanna í sumar. Þar lýsti Lilja afdráttarlaust yfir stuðningi íslenskra stjórnvalda við umsókn Færeyinga, sem er lögð fram með samþykki og stuðningi Dana. Aðildarríki EFTA nú eru fjögur; Sviss, Noregur, Liechtenstein og Ísland en aðild nýrra ríkja krefst samþykkis allra aðildarríkjanna.

,,Aðild Færeyja að EFTA myndi styrkja samtökin, auka fjölbreytni í samstarfinu og skapa tækifæri fyrir frændur okkar og vini í Færeyjum. Með aðild gætu Færeyingar t.a.m. gengið inn í fríverslunarsamninga EFTA við 37 ríki utan samtakanna. Við sækjumst eftir enn nánara samstarfi við Færeyjar, enda fara hagsmunir landanna saman á margan hátt auk þess sem við tengjumst sögulegum, menningarlegum og tilfinningalegum böndum," segir Lilja Alfreðsdóttir."

Á fundi utanríkisráðherrana í Þórshöfn í Færeyjum var einnig rætt um ávinning þjóðanna af Hoyvíkursamningnum - núverandi fríverslunarsamningi milli Færeyja og Íslands sem verið hefur í gildi í tíu ár. Í tilefni af því sammæltust ráðherrarnir um að yfirfara samninginn, meta árangurinn af honum og kanna hvort þörf væri á breytingum. Markmið Hoyvíkursamningsins er að stuðla að auknum viðskiptum milli landanna og skapa tækifæri fyrir útflytjendur í báðum löndum. 

Til baka Senda grein