Gunnar Bragi fundar með yfirmönnum alþjóðastofnana í Genf

10.3.2016

  • UNHCR-Filippo-Grandi
    Gunnar Bragi og Filippo Grandi, framvkæmdastjóra UNHCR

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í gær fundi með þremur yfirmönnum alþjóðastofnana í Genf þar sem m.a. var rætt um brýn úrlausnarefni vegna flóttamannavandans í Evrópu og leiðir til fullnustu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Á fundi sínum með Zeid Ra'ad Al Hussein, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, lagði utanríkisráðherra áherslu á jafnréttismál, þær áskoranir sem uppi væru og framlag íslands í þeim málaflokki. Þá var rætt um málefni flóttamanna í Evrópu og víðar og mikilvægi þess að grundvallarmannréttindi væru virt. Ræddu þeir enn fremur hina alþjóðlegu baráttu gegn mismunun og fordómum.

Þá átti utanríkisráðherra fund með Roberto Azevedo, framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Þar lagði utanríkisráðherra áherslu á mikilvægi hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis fyrir Ísland og sagði að niðurstaða síðasta ráðherrafundar WTO í Naíróbí í desember sl. væri afar mikilvæg fyrir þróun alþjóðaviðskipta. Azevedo þakkaði fyrir hlutverk Íslands á þeim fundi í að ná samkomulagi um ívilnunarmeðferð til handa vanþróustu ríkjum heims á sviði þjónustuviðskipta. Sagði Gunnar Bragi hlutverk WTO vera þýðingarmikið og lagði í því samhengi áherslu á afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi í því augnamiði að draga úr ofveiði sjávarfangs. Hefur þetta lengi verið baráttumál Íslands á vettvangi WTO. 

Loks átti utanríkisráðherra fund með Filippo Grandi, framkvæmdastjóra Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), þar sem þær miklu áskoranir sem Evrópa stendur frammi fyrir vegna flóttamannavandans voru ræddar. Í máli sínu lagði utanríkisráðherra áherslu á heildrænar lausnir við lausn þessa brýna vanda og að líta yrði til orsaka hans. Æskilegt væri að leysa vandann á þeim átakasvæðum sem fólk væri að flýja og að efla enn frekar alþjóðastofnanir sem starfa á vettvangi. Í því samhengi gerði hann grein fyrir auknum framlögum Íslands til bæði Flóttamannastofnunarinnar og annarra lykilstofnana, sem og móttöku flóttamanna til Íslands á síðasta ári og áformum stjórnvalda til að taka á móti fleirum í ár. Filippo Grandi, sem nýverið tók við stöðu framkvæmdastjóra UNHCR, þakkaði íslenskum stjórnvöldum sérstaklega fyrir framlag sitt sem væri afar mikilvægt.

Til baka Senda grein