Fundar með ráðamönnum og SÞ í Palestínu

17.2.2016

  • Gunnar Bragi og Rami Hamdallah forsætisráðherra.
    Gunnar Bragi og Rami Hamdallah forsætisráðherra.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, hefur í dag og gær haldið áfram heimsókn sinni til Miðausturlanda. Ráðherra hélt í gær yfir til Palestínu og fundaði þá m.a. með Rami Hamdallah, forsætisráðherra Palestínu, í Ramallah. Ræddu ráðherrarnir þá alvarlegu stöðu sem er uppi í samskiptum Ísraela og Palestínumanna og möguleika til lausnar deilunni. Kom Gunnar Bragi ennfremur á framfæri afstöðu og sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda til deilunnar, meðal annars fordæmingu á ólögmætum landtökubyggðum Ísraela og mannfalli meðal óbreyttra borgara - af hálfu beggja deiluaðila. Þá ræddu ráðherrarnir jafnréttismál og aðild Palestínu að alþjóðastofnunum, sem Ísland styður.  Jafnframt þakkaði forsætisráðherrann Íslandi á ný fyrir að hafa fyrst vestrænna ríkja viðurkennt Palestínu sem fullvalda og sjálfstætt ríki en Alþingi samþykkti samhljóða þingsályktun þess efnis árið 2011.

Utanríkisráðherra fundaði einnig með Mohammed Shtayyeh, ráðherra þróunar- og efnahagsmála, og ræddu þeir m.a. þróunarsamvinnu Íslands og Palestinu, en Palestina er eitt af áherslulöndum Íslands á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, og möguleika á auknum tvíhliða viðskiptum. Þá sat Gunnar Bragi kvöldverð í boði menningarmálaráðherra Palestínu, Ehab Bessaiso, en hugsanleg samskipti landanna tveggja á sviði menningar og lista komu þar til tals. Utanrikisráðherra fundaði einnig með Mustafah Barghouti, stofnanda Palestinian Medical Relief Society, sem notið hefur fjárhagsstuðnings íslenskra stjórnvalda vegna starfs á sviði heilbrigðismála í Palestínu fyrir bágstadda hópa.

AL6K6148 Fyrr um daginn hafði Gunnar Bragi átt kynningarfund með fulltrúum Samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) í Jerúsalem, en OCHA hefur um árabil kortlagt nákvæmlega þróun landtökubyggða Ísraela á Vesturbakkanum og meint brot á mannúðarrétti Palestínumanna. Einnig heimsótti ráðherra sjúkrahús í Austur Jerúsalem og kynnti sér starfsemi þess.

Utanríkisráðherra heimsótti í dag borgina Betlehem og hitti þar m.a. Pierre Krahenbuhl, yfirmann Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA),  og var viðstaddur vígslu nýs leikvallar fyrir börn í Aida-flóttamannabúðunum sem UNRWA hefur byggt með stuðningi erlendra ríkja.  Ísland hefur um margra ára skeið stutt  starfsemi UNRWA. Einnig fundaði ráðherra með landsstjóranum í Betlehem, Jibreen Al-Bakri, og borgarstjóranum, Veru Baboon, og naut leiðsagnar hennar í heimsókn í fæðingarkirkju frelsarans.

Á morgun mun utanríkisráðherra heimsækja Jórdaníu og þá hitta Nasser Judeh utanríkisráðherra að máli og kynna sér aðstæður í Zaatari-flóttamannabúðunum nálægt landamærunum að Sýrlandi en þær hýsa nú um áttatíu þúsund sýrlenska flóttamenn.

Til baka Senda grein