Hoppa yfir valmynd
8. mars 2007 Utanríkisráðuneytið

Rammasamningur utanríkisráðuneytisins og UNIFEM

RæðaValgerðar Sverrisdóttur utanríkisráðherra

í tilefni undirskriftar á rammasamningi milli

utanríkisráðuneytisins og Landsnefndar UNIFEM á Íslandi,

8. mars, 2007

Góðir gestir,

Til hamingju með daginn, 8. mars, alþjóðlegan baráttudag kvenna.

Í dag eru liðin 97 ár frá því að Clara Zetkin, þýsk kvenréttindakona, bar fyrst upp hugmyndina að sérstökum baráttudegi kvenna. Þá var talið mikilvægt að velja sunnudag sem var eini frídagur kvenna í þá daga. Baráttumálin voru kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna.

Einum 67 árum síðar, eða árið 1977 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur kvennadagur. Í dag, 30 árum síðar, erum við enn að ræða um það sem ættu að teljast sjálfsögð mannréttindi kvenna. Reyndar á fimmtudegi, sem kann að fela í sér framför!

Við tölum oft um hvað nútíminn einkennist af hröðum breytingum, en þó er nú oft svo að manni virðist sem tíminn hreyfi minna eða jafnvel of lítið við sumum hlutum en æskilegt væri. Mér dettur í hug barátta kvenna fyrir jafnrétti og þessar línur úr ljóði Steins Steinars í því samhengi:

Það bjargast ekki neitt, það ferst, það ferst.

Það fellur um sig sjálft og er ei lengur.

Svo makalaust er þitt líf og lítill fengur,

og loks er eins og ekkert hafi gerzt.

Lögmál tímans virðist oft hreinlega ekki eiga við um jafnréttismálin. Maður spyr sig hvert hreyfiafl sögunnar sé og hvaða þættir séu ríkjandi hvar og hverju sinni.

Á hverjum degi geng ég fram hjá ljósmyndaröð sem hefur að geyma alla fyrrverandi utanríkisráðherra íslensku þjóðarinnar, átján talsins – þar af eina konu. Það er í raun með ólíkindum, og auðvitað ekki boðlegt, að fyrir tæpu ári hafði engin íslensk kona tekið sæti sem utanríkisráðherra.

Við erum hér saman komin í dag í tilefni af undirritun á rammasamningi utanríkisráðuneytisins við Landsnefnd UNIFEM á Íslandi. Ég tel í raun óþarft að hafa uppi mörg orð um gildi samningsins og það vægi sem utanríkisráðuneytið leggur á frekara samstarf við UNIFEM í framtíðinni. Ég segi einungis að það hefur geysimikið vægi í okkar huga.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á stuðning við verkefni sem snúa að bættri velferð og bættu lífi kvenna og barna í fátækari ríkjum heims. Leiðir utanríkisráðuneytisins og UNIFEM hafa því eðlilega legið saman. Við í utanríkisráðuneytinu teljum okkur eiga samleið með þeim sem vinna að aukinni þekkingu og skilningi á málefnum kvenna og vilja stuðla að bættum lífskjörum þeirra og auknum réttindum.

Í starfi mínu sem utanríkisráðherra hef ég lagt áherslu á samþættingu kynjasjónarmiða í málflutningi Íslands á alþjóðavettvangi og ég vona að þær áherslur og sjónarmið skili árangri. Ég hef m.a. lagt áherslur á að verkefnaval og markmið friðargæslunnar taki mið af kynjasjónarmiðum og stuðlað verði að auknu jafnrétti í störfum friðargæslunnar. Við stefnum að auknu samstarfi við bæði UNICEF og UNIFEM þar sem gert er ráð fyrir fjölgun íslenskra friðargæsluliða í þeirra röðum. Við eigum nú þegar mjög gott samstarf við UNIFEM um undirbúning og þjálfun friðargæsluliða í því skyni að gætt sé að stöðu kvenna á þeim svæðum sem friðargæsluliðarnir starfa á og rammasamningurinn formfestir þetta samstarf enn frekar.

Í þessu samhengi er jafnframt ánægjulegt að greina frá því að verið er að leggja lokahönd á gerð aðgerðaráætlunar eða markmiðasetningar íslenskra stjórnvalda á grundvelli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 frá árinu 2000.

Ályktun 1325 fjallar um konur, stríð og friðargæslu og mælir fyrir um að öryggisráðið skuli beita sér fyrir aukinni þátttöku kvenna til að koma í veg fyrir vopnuð átök og auknu hlutverki og áhrifum kvenna í alþjóðlegu friðarferli og friðaruppbyggingu. Hér er einnig ástæða til að undirstrika mikilvægi hlutverks UNIFEM.

Góðir fundargestir,

Þáttur alþjóðlegrar þróunarsamvinnu er mér einnig ofarlega í huga í umræðunni um réttindi og kjör kvenna. Þróunarsamvinna hefur hlotið aukið vægi í utanríkisstefnu Íslands á undanförnum árum og íslensk stjórnvöld eru mjög meðvituð um mikilvægi þess að áfram verði haldið á þeirri braut og vilja með því leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn fátækt í heiminum.

Aðstoð Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hefur beinst í auknum mæli að málefnum og hagsmunum kvenna í þróunarríkjunum og í utanríkisráðuneytinu er nú verið að leggja lokahönd á gerð stefnu stjórnvalda í mannréttindamálum þar sem meðal annars er komið inn á tengsl málaflokksins við verkefni þróunarsamvinnu. Það er því ljóst að málefni og réttindi kvenna munu áfram verða mikilvægur þáttur í utanríkismálum og þróunarsamvinnu Íslands.

Ég er nýkomin heim úr vinnuheimsókn til Afríku. Þetta var mín jómfrúarferð til Afríku og ég held að heimókn til þessarar fátæku heimsálfu láti engan ósnortinn. Það er skemmst frá því að segja að ferðin var mér mikil upplifun og ég tel mig vera reynslunni ríkari og hafa skýrari sýn á hin ýmsu málefni sem snúa að því mikilvæga starfi sem unnið er af alþjóða- og þróunarsamvinnustofnunum, ekki síst því starfi sem snýr að konum og börnum.

Í heimsókn minni til Paderhéraðs í Norður-Úganda sá ég og upplifði með eigin augum þá neyð sem til staðar er svo víða og þá staðreynd að konur og börn verða ítrekað hvað verst úti þar sem ófriður geisar. Ég hlýddi á sársaukafullar frásagnir unglingstúlkna og drengja sem numin höfðu verið á brott af svonefndum Frelsisher drottins og neydd til ódæða og kynlífsþrælkunar. Barnahermennska er mikið böl og okkur ber skylda til að berjast gegn henni. Óttinn við grimmd Frelsishersins hefur hrakið flesta íbúa héraðsins í flóttamannabúðir, en þrátt fyrir allt voru íbúar svæðisins vongóðir og tóku vel á móti mér.

Ég var viðstödd matargjöf Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna og þótti mér athyglisvert að heyra að þar fá aðeins konur úthlutað mánaðarskammtinum. Karlpeningnum er einfaldlega ekki treyst fyrir þessari lífgjöf enda brunnið við að fjölskyldan hafi mátt svelta svo að heimilisfaðirinn gæti fengið sér neðan í því.

Það verkefni sem ég er hvað stoltust af er skólamáltíðarverkefnið í Úganda og Malaví sem íslensk stjórnvöld styrkja. Var mér tjáð að skólamáltíðir kæmu stúlkum að hvað mestu gagni, þar sem foreldrar þeirra myndu að öðrum kosti ekki senda þær í skóla. Áhugi foreldranna á námi telpnanna glæddist einnig þar sem þær fá einnig matarskammt með heim að skóladegi loknum.

Ef eitthvað eitt stendur upp úr þessari eftirminnilegu för þá eru það konurnar sem ég hitti. Hvort sem þær voru ráðherrar, þingmenn eða konur að berjast fyrir bættu lífi fyrir sig og sína, eins og kraftaverkakonurnar í félagskap kvenna í atvinnurekstri í Kampala, þá fann ég að framtíð Afríku býr í krafti kvennanna. Mér þótti gaman að eftir því var tekið að sendinefndin frá Íslandi var aðeins skipuð konum og þetta varð oft tilefni til fjörugra umræðna um stöðu kvenna almennt. Má þar nefna að athafnakonurnar í Kampala, sem nokkrar höfðu verið svo lánsamar að sækja frumkvöðlanámskeið hér í Háslólanum í Reykjavík, kvörtuðu sáran undan því að hafa mjög takmarkaðan aðgang að lánsfé. Oft á tíðum þurfa þær ekki mikið til að geta stofnað eigið fyrirtæki og séð fyrir fjölskyldu sinni. Nefnd var upphæðin 50 Bandaríkjadalir. Bankarnir lána hins vegar ekki konunum þótt sannað sé að þær sé mun áreiðanlegri lántakendur en karlar.

Góðir fundargestir,

Mig langar að nota þetta tækifæri til að minnast á mikilvægi hlutverks einkageirans og umræðuna um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Það er mikið ánægjuefni að fylgjast með vaxandi áhuga íslenskra fyrirtækja á því að láta gott af sér leiða.

Kofi Annan, fráfarandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur kallað eftir aukinni þátttöku einkageirans í baráttunni gegn fátækt í heiminum og lýst því yfir að sett þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna muni ekki nást nema með kröftugri innkomu einkageirans.

Tvö af átta þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um þróun fjalla beint um málefni kvenna. Og í nýlegri skýrslu UNICEF er fullyrt að aukið jafnrétti kynjanna, sem er eitt þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, muni hjálpa til við að ná öllum hinum þúsaldarmarkmiðunum. Allt frá því að draga úr fátækt og hungri til þess að bjarga lífi barna, tryggja menntun, berjast gegn HIV/alnæmi, malaríu og öðrum sjúkdómum og tryggja verndun umhverfisins.

En hvert er hlutverk einkageirans hér? Af nógum verkefnum er að taka, hvort heldur er í formi almenns stuðnings við málefni, eða með beinni þátttöku í gegnum verkefni og vinnu – hvort heldur er heima eða að heiman.

Þau ánægjulegu tíðindi bárust í janúar að Glitnir hefði fyrst íslenskra fyrirtækja gerst bakhjarl landsnefndar UNIFEM og veitt 10 milljón króna styrk til starfseminnar næstu tvö árin, meðal annars með sérstaka áherslu á baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi og þekkingu á málefnum kvenna í þróunarlöndum. Þetta er lofsvert framtak.

Ekki er síður ánægjulegt að heyra af einstaklingsframtaki Eiðs Haraldssonar, forstjóra og eiganda verktakafyrirtækisins Háfells. Eiður ku hafa lýst sjálfum sér sem mikilli karlrembu í gegnum tíðina, en í tilefni sextugsafmælis síns ákveðið að venda kvæði sínu í kross með því að afþakka afmælisgjafir og láta andvirði þeirra renna til UNIFEM á Íslandi. Þeir fjármunir sem þar söfnuðust, hálf milljón króna, munu renna til kvennamiðstöðvar UNIFEM í Afganistan þar sem boðið er upp á fræðslu og heilbrigðisþjónustu fyrir konur.

Góðir fundargestir,

Mér þótti mikið koma til þeirra fjölda kvenna sem ég hitti í heimsókn minni til Afríku og þess sem þær stóðu fyrir. Hvort heldur var hópurinn sem vann við sauma í tjöldum flóttamannabúðanna í Pader héraði eða konurnar sem aðstoðuðu HIV smitaða; hvort heldur það voru samtök frumkvöðlakvenna í Kampala eða opinberir starfsmenn og stjórnendur.

Ég leyfi mér að fullyrða að íslensk fyrirtæki geta gert stóra hluti í samvinnu við slíka kvenskörunga, hvort heldur er á sviði beinharðra viðskipta eða í mannúðarstarfi.

Mér finnst það í raun vel við hæfi að við höfum þessa undirskrift hér í Háskóla Reykjavíkur. Háskólinn í Reykjavík er jú menntastofnun sem hefur verið byggð upp og stýrt fram á veginn af miklum myndugleik, þori og þreki kvenna. Verkefnið Auður í krafti kvenna átti hér athvarf, en þar fór fram starf sem einkenndist af baráttu, bjartsýni og þeirri vissu að kraft kvenna eigi að virkja þjóðfélaginu öllu til hagsældar og betra lífs.

Mennt er máttur, er ekki bara gott slagorð – heldur sannleikur. Menntun karla og kvenna, drengja og stúlkna er það hreyfiafl sem ég treysti til að ná fram raunverulegu kynjajafnrétti.

Takk fyrir



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum