Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2006 Utanríkisráðuneytið

Morgunverðarfundur UNIFEM á Íslandi

Í tilefni alþjóðlegs baráttudags Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi

(25. nóvember)

Góðir fundargestir,

Það er mér sönn ánægja að vera hér í dag og ýta úr vör árlegu 16 daga átaki gegn kyndbundnu ofbeldi sem UNIFEM á Íslandi hefur verið í forsvari fyrir undanfarin ár, í samvinnu við önnur íslensk félagasamtök.

Það er enn mikið verk óunnið hvað varðar réttindi og velferð kvenna í heiminum. Því eru hugsjónir og störf UNIFEM svo mikilvæg. Markmiðið að stöðva ofbeldi gegn konum í heiminum er ekki aðeins mikilvægt eitt og sér, heldur er það einnig mikilvægur þáttur í því að byggja upp jafnrétti kynjanna. Þá hafa reynsla og rannsóknir einnig sýnt að aðstoð við menntun, heilbrigði og atvinnurekstur kvenna hefur margfeldisáhrif fyrir samfélagið.

Stuðningur við konur og börn er mikilvægur liður í þróunarsamvinnu Íslands sem hefur farið vaxandi á síðustu árum. Má þar nefna stóraukinn stuðning íslenskra stjórnvalda við starfsemi UNIFEM og farsælt samstarf Íslands og landsnefndar samtakanna.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á stuðning við verkefni sem snúa að bættri velferð og bættu lífi kvenna og barna í fátækari ríkjum heims. Leiðir utanríkisráðuneytisins og UNIFEM hafa því eðlilega legið saman, enda  má ef til vill segja að UNIFEM sé náttúrulegur samstarfsaðili fyrir ráðuneytið í þessum málum. Stuðningur utanríkisráðuneytisins við ofbeldissjóð UNIFEM, var meðal annars þrefaldaður í fyrra og gert er ráð fyrir enn frekari aukningu til hans á næstu árum. Sjóðurinn veitir mikilvægan stuðning til aðila og verkefna sem hafa það að markmiði að berjast gegn ofbeldi gegn konum í heiminum. Framlag sjóðsins er því víða ómetanlegt.

Utanríkisráðuneytið hefur einnig styrkt verkefni á vegum UNIFEM í Afghanistan, sem stuðlar að því að bæta hag kvenna þar í landi. Þá hefur Íslenska friðargæslan í vaxandi mæli komið að verkefnum tengdum málefnum kvenna og öðru þróunarsamstarfi og mun svo áfram verða, enda uppbyggingar- og þróunarstarf órjúfanlega tengt friði og stöðugleika. Nú er nýlokið tveggja vikna námskeiði sem friðargæslan stóð fyrir í fátækasta héraði Afganistan í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. Stofnunin útvegaði nauðsynlegan búnað til námskeiðahaldsins, ásamt því sem hjúkrunarfræðingur frá Húsavík og ljósmóðir úr Reykjavík leiðbeindu ljósmæðrum og yfirsetukonum í héraðinu um fæðingarhjálp og ungbarna- og mæðravernd. Ungbarna- og mæðradauði er geysilegur í Afganistan og vonumst við til að reynslan af þessu námskeiði nýtist við að halda slíku starfi áfram í héraðinu.

Ég hef líka lagt á það áherslu að verkefnaval og markmið friðargæslunnar taki mið af kynjasjónarmiðum. Í starfi okkar á Sri Lanka er til dæmis helmingur friðargæsluliða konur og við sjáum að starf þeirra og nærvera skiptir miklu máli fyrir konur á eftirlitssvæðum. Við höfum einnig átt ágætt samstarf við UNIFEM um undirbúning og þjálfun friðargæsluliða í því skyni að gætt sé að stöðu kvenna á þeim svæðum sem friðargæsluliðarnir starfa á, og er þannig eftir kostum reynt að stuðla að auknu jafnrétti í störfum friðargæslunnar.

Málefni morgunverðarfundarins í ár, sem lýtur m.a. að verkefni UNIFEM við friðaruppbyggingu á Balkanskaga, hefur einmitt verið áherslumál hjá utanríkisráðuneytinu undanfarin ár; fyrst sem staðbundið verkefni í Kosóvó og nú í formi svæðisáætlunar fyrir ríki og sjálfstjórnarsvæði fyrrum Júgóslavíu og Albaníu. Það er því ánægjulegt að geta greint frá því að frá og með næsta ári verða þrír friðargæsluliðar starfandi með UNIFEM í verkefnum sem snúa að því að byggja upp stjórnsýslu og réttarfar, annars vegar í verkefninu á Balkanskaga og hins vegar höfum við hug á að koma að verkefnum með UNIFEM og UNICEF í Líberíu. Þar, eins og á Balkanskaga, er mikilvægt að þróa stjórnkerfið með hagsmuni beggja kynja í huga og jafnrétti í forgrunni. Í Líberíu var nýlega kosin kvenforseti og mikið verk er framundan þar við að tryggja stöðugleika sem er nauðsynlegur grundvöllur uppbyggingar og framþróunar á svæðinu.

Ég sé fyrir mér íslenska friðargæslu sem hentar báðum kynjum, þar sem uppbygging og friðarferli haldast í hendur og við Íslendingar leggjum af mörkum til alþjóðasamfélagsins okkar sérkunnáttu og þekkingu.  Þetta er sú friðargæsla sem við stefnum að og það er ánægjulegt að heyra að náið samstarf utanríkisráðuneytisins og UNIFEM á Íslandi, hvað varðar aðkomu Íslands að þessum verkefnum, hefur vakið eftirtekt og jafnvel orðið öðrum landsfélögum hvatning til eftirbreytni.

Góðir fundargestir,

Þróunarsamvinna hefur hlotið aukið vægi í utanríkisstefnu Íslands á undanförnum árum. Íslensk stjórnvöld eru mjög meðvituð um mikilvægi þess að áfram verði haldið á þeirri braut og vilja með því leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn fátækt í heiminum.

Áætlað er að framlög Íslands til þróunarsamvinnu muni nema 0,35% af landsframleiðslu árið 2009, en þá hafa framlög Íslands margfaldast á einum áratug. Aðstoð Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hefur einnig beinst í auknum mæli að málefnum og hagsmunum kvenna í þróunarríkjunum. Þá á Ísland um þessar mundir sæti í Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna þar sem gott tækifæri gefst til að leggja þessum málaflokki lið á alþjóðlegum vettvangi og hafa þannig áhrif á stefnumótun málaflokksins á alþjóðavísu.

Í málflutningi okkar höfum við lagt á það mikla áherslu að kynja- og jafnréttissjónarmið verði tekin fastari tökum í verkefnum Sameinuðu þjóðanna. Ég er því afskaplega ánægð með að nýlegar tillögur um endurskipulagningu á þróunarstarfi samtakanna eru í þeim anda. Verkinu er þó hvergi nærri lokið, en það sama gildir um jafnréttismálefni eins og svo margt annað, að dropinn holar steininn, þótt manni finnist stundum að þróunin sé of hæg. Meginatriðið er þó að missa ekki sjónar á markmiðinu heldur að halda áfram að vinna að framgangi þessara mála.

Að mínu mati felast gagnkvæmir hagsmunir í eflingu samstarfs milli íslenskra stjórnvalda, UNIFEM og landsnefndarinnar á Íslandi. Því hef ég ákveðið að hefja vinnu við gerð rammasamnings við landsnefnd UNIFEM, sem leggja mun grundvöllinn að auknu samstarfi og uppbyggingu á velferð, hag og áhrifum kvenna í fátækustu ríkjum heims. 

Góðir fundargestir,

Það hefur verið sérlega ánægjulegt að fylgjast með þeim mikla krafti sem er í starfi landsnefndar UNIFEM á Íslandi. Við í utanríkisráðuneytinu teljum okkur eiga samleið með þeim sem vinna að aukinni þekkingu og skilningi á málefnum kvenna og vilja stuðla að bættum lífskjörum þeirra og auknum réttindum. Við munum ekki láta okkar eftir liggja í samstarfi á þeim vettvangi og því munu málefni kvenna áfram verða lykilþáttur í þróunarsamvinnu Íslands.

Takk fyrir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum