Hoppa yfir valmynd
21. mars 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Samnorrænt lyfjaútboð með áherslu á sýklalyf

Samnorrænt lyfjaútboð með áherslu á sýklalyf - myndLjósmynd: Anne-Li Engström

Ísland, Noregur og Danmörk hafa ráðist í sameiginlegt lyfjaútboð. Í útboðinu eru gerðar sérstakar kröfur varðandi sýklalyf með áherslu á að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis. Þetta er þriðja sameiginlega stóra lyfjaútboð þjóðanna. Útboðin hafa stuðlað að bættu lyfjaöryggi og leitt til lægra lyfjaverðs sem hefur til að mynda sparað Landspítala um 100 milljónir króna á ársgrundvelli. Ávinningurinn er þó meiri þar sem heilbrigðisstofnanir um allt land njóta góðs af lægra innkaupaverði lyfja.

Með sameiginlegu útboði skapast stærra markaðssvæði sem öll þátttökulöndin njóta góðs af. Eitt af markmiðunum er að tryggja afhendingaröryggi lyfja sem skortur er á, en það á sérstaklega við um ýmis þekkt eldri lyf. Útboðið tekur til 14 lyfja sem eru töluvert fleiri lyf en í fyrri útboðum. Hulda Harðardóttir, verkefnastjóri á Landspítala segir aukið úrval lyfja í útboðinu hafa mikla þýðingu og veki vonir um að fjölga megi lyfjum sem hægt verði að ná samkomulagi um og þannig aukið afhendingaröryggið. Þetta var reynslan af síðasta útboði þar sem skráðum lyfjum á markaði fjölgaði sem bætti birgðastöðu lyfja sem stundum hefur verið skortur á hér á landi. 

Sérstök umhverfismarkmið vegna sýklalyfjanna

Ísland, Noregur og Danmörk hlutu evrópsk verðlaun, „The European Healthcare Procurement Awards 2022“ fyrir síðasta sameiginlega lyfjaútboðið þar sem umhverfiskröfur voru settar í forgang. Að þessu sinni verða sérstakar kröfur varðandi sýklalyfin sem fela m.a. í sér að lyfin séu framleidd eftir tilteknum stöðlum sem tryggja að sýklalyfjamengun berist ekki út í umhverfið við framleiðslu þeirra.

Markmiðið er að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis sem er vaxandi vandamál víða um heim. Nýverið skilaði þverfaglegur starfshópur skipaður af heilbrigðisráðherra í samvinnu við matvælaráðherra og umhverfis- orku- og loftslagsráðherra aðgerðaáætlun með tillögum um víðtækar aðgerðir hér á landi í þessu skyni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum