Hoppa yfir valmynd
8. mars 2024 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra leggur til aukinn stuðning við Úkraínu

 Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ávarpar fundargesti. - myndKristinn Ingvarsson

Undirbúningur að tvíhliða samningi við Úkraínu um öryggis- og varnarsamstarf til lengri tíma og aukinn þungi í framlög til varnarmála voru ofarlega á baugi í opnunarávarpi Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra í gær á fundi smáríkjaseturs Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sendiráðs Litáen gagnvart Íslandi um viðbrögð við innrás Rússlands í Úkraínu. 

Í ræðu sinni sagði utanríkisráðherra að innrás Rússa hefði valdið straumhvörfum í öryggisumhverfi Evrópu og að ólöglegt og tilefnislaust árásarstríð þeirra væri ekki aðeins árás á Úkraínu heldur einnig á hið alþjóðlega kerfi og skýlaust brot á alþjóðalögum. 

„Rússland ógnar ekki aðeins tilvist Úkraínu. Það ógnar frelsi okkar, lýðræði og lifnaðarháttum. Við getum ekki staðið aðgerðalaus. Við þurfum að grípa til aðgerða - hvert og eitt okkar - en einnig sameiginlega,“ sagði Bjarni

Ráðherra vék í því samhengi að þeirri fyrirætlan að leggja fyrir Alþingi sérstaka þingsályktunartillögu um aukinn stuðning til Úkraínu til næstu fimm ára, auk fyrrnefnds tvíhliða samnings við Úkraínu sem og aukin framlög til öryggis- og varnarmála.

„Réttu viðbrögðin við auknum ógnum felast í því að efla fælingarmátt og viðbragðsgetu,“ sagði utanríkisráðherra meðal annars.

Erindið í heild sinni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum