Hoppa yfir valmynd
6. mars 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aukinn skýrleiki og bætt samkeppnishæfni með breytingum á lögum um virðisaukaskatt

Aukinn skýrleiki og bætt samkeppnishæfni með breytingum á lögum um virðisaukaskatt
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur lagt í samráðsgátt drög að frumvarpi um breytingu á lögum um virðisaukaskatt. Þar er m.a. lagt til að einfalda og skýra fyrirkomulag álagningar virðisaukaskatts vegna sölu á þjónustu milli landa í viðskiptum milli fyrirtækja (B2B). Lagt er til að tekið verði upp samskonar fyrirkomulag og er í virðisaukaskattstilskipun Evrópusambandsins.

Í núgildandi lögum kemur fram að sala á þjónustu til atvinnufyrirtækja, sem ekki hafa heimilisfesti eða fasta starfsstöð hér á landi, er undanþegin skattskyldri veltu ef hún er veitt yfir landamæri frá seljanda á Íslandi. Á hinn bóginn er sala á þjónustu til erlends atvinnufyrirtækis sem á sér stað og er raunverulega nýtt á Íslandi skattskyld hér á landi. Það gerir að verkum að meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvar þjónusta telst hafa verið veitt og þar með nýtt, sem getur haft óhagræði í för með sér.

Í virðisaukaskattstilskipun ESB, er þessu öfugt farið. Þar hefur matið verið framkvæmt fyrir fram með því að tilgreina í tilskipuninni undanþágur frá meginreglunni um að þjónusta sé skattlögð í því ríki þar sem atvinnufyrirtæki er með heimilisfesti eða fasta starfsstöð. Lagt er til að sams konar fyrirkomulag og kveðið er á um í virðisaukaskattstilskipun Evrópusambandsins verði tekið upp í lögum um virðisaukaskatt. Markmiðið er að tryggja aukinn skýrleika þeirra lagaákvæða sem um ræðir og frekari fyrirsjáanleika um framkvæmdina. Breytingunni er enn fremur ætlað að styrkja samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi þar sem lagareglur um meðhöndlun virðisaukaskatts í viðskiptum atvinnufyrirtækja milli landa verða sambærilegar þeim reglum sem er að finna í virðisaukaskattstilskipun Evrópusambandsins.

Með framangreindri breytingu á B2B reglunni í lögum um virðisaukaskatt er m.a. skammtímaleiga á farartækjum felld undir regluna. Það kallar á breytingar á ákvæði í lögunum sem kveður á um að sala og útleiga loftfara og skipa sé undanþegin skattskyldri veltu, enda sé ekki um að ræða skip sem eru undir 6 metrum að lengd, skemmtibáta eða loftför í einkaflugi. Í frumvarpinu er lagt til að í stað þess að ákvæðið gildi um hvers konar útleigu muni það framvegis aðeins gilda um langtímaleigu.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til minniháttar breytingar á lögum um virðisaukaskatt að því er varðar sölu á þjónustu til annarra en atvinnufyrirtækja sem hafa ekki heimilisfesti, lögheimili, varanlega búsetu eða dveljast ekki að jafnaði hér á landi í þeim tilgangi að auka skýrleika laganna og tryggja frekari fyrirsjáanleika um framkvæmdina. Í breytingunni felst að nánari skilgreining á þjónustu við fasteignir, mannvirki og lausafé hér á landi sem er skattskyld hér á landi.

Málið er í samráðsgátt stjórnvalda og hægt að senda inn athugasemdir til 11. mars.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum