Hoppa yfir valmynd
1. mars 2024 Matvælaráðuneytið

Umhverfissjóður sjókvíaeldis auglýsir eftir umsóknum

Sjókvíar í Reyðarfirði. - mynd

Umhverfissjóður sjókvíaeldis auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsókna og verkefna sem styðja við markmið sjóðsins um lágmörkun umhverfisáhrifa af völdum sjókvíaeldis, samkvæmt reglugerð nr. 874/2019 um Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Til úthlutunar á árinu 2024 eru kr. 185.700.000,-.

Stofnanir, fiskeldisfyrirtæki, einstaklingar og lögaðilar geta sótt um styrki til sjóðsins.
Hlutverk sjóðsins er að greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats og vöktunar. Sjóðurinn getur jafnframt greitt kostnað við önnur verkefni sem stjórn sjóðsins ákveður eftir því sem fjármagn leyfir. Verkefnum er forgangsraðað í samræmi við framangreint hlutverk og áherslur stjórnar hverju sinni.

Stjórn sjóðsins leggur faglegt mat á allar umsóknir, forgangsraðar verkefnum og ákveður styrkfjárhæð, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 874/2019. Við úthlutun ársins 2024 mun stjórn hafa lögbundið hlutverk sjóðsins til grundvallar úthlutunar, en auk þess líta sérstaklega til verkefna er lúta að aðgerðum til að koma í veg fyrir strok eldisfiska og lágmarka afleiðingar þess.

Sjóðurinn upplýsir á vef sínum um styrki sem sjóðurinn veitir, þar sem fram komi upplýsingar um nafn viðtakanda, fjárhæð styrkja og heiti verkefnis og markmið. Vakin er athygli á því að loka- og framvinduskýrslur verkefna sem sjóðurinn styrkir skulu almennt vera aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins, sbr. starfsreglur stjórnar. Aðrar upplýsingar í umsóknum er varða fjárhag eða viðskiptahagsmuni umsækjenda og annarra einstaklinga og lögaðila er tengjast verkefnum á vegum sjóðsins skulu meðhöndlaðar sem trúnaðarmál að því marki sem lög takmarka ekki.

Umsóknarfrestur er til klukkan 16:00, 5. apríl 2024.

Umsóknum er skilað rafrænt á eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Nánari upplýsingar og úthlutunarreglur má finna neðar á síðunni og á síðu sjóðsins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum