Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Yfirlýsing undirrituð um samstarf þjónustukerfa á sviði endurhæfingar

Frá vinstri til hægri: Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Heildstæð nálgun, samvinna kerfa og samfella í þjónustu verða leiðarstefin í endurhæfingu fólks samkvæmt viljayfirlýsingu sem hefur verið undirrituð. Einstaklingum í endurhæfingu skal markvisst fylgt á milli þjónustukerfa þurfi þeir á þjónustu fleiri en eins kerfis að halda og skýrt verður hvernig ábyrgð á þjónustunni færist á milli kerfa.

Undir yfirlýsinguna rituðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK, og Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í framhaldi af yfirlýsingunni hefst vinna við gerð samnings um framtíðarfyrirkomulag um heildstæða nálgun og samþættingu þjónustu í tengslum við endurhæfingu einstaklinga hér á landi. Stefnt er því að samningurinn um framtíðarfyrirkomulagið verði undirritaður í apríl nk.

Samhliða þessu hafa Tryggingastofnun, Vinnumálastofnun, VIRK, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og velferðarsvið Reykjavíkurborgar lýst yfir vilja til að vinna saman að sérstöku undirbúningsverkefni er varðar samvinnu þjónustukerfa í tengslum við endurhæfingu einstaklinga. Tilgangur undirbúningsverkefnisins er að fá hlutaðeigandi þjónustukerfi til að vinna saman í sérstökum samhæfingarteymum þar sem áhersla er lögð á heildstæða nálgun miðað við þarfir hvers og eins og að endurhæfingin verði samfelld.

Þjónustukerfin geta meðal annars vísað málum einstaklinga inn í samhæfingarteymin þegar vafi leikur á því hvers konar þjónusta gagnist eða þegar óskað er eftir því að skoðað verði sérstaklega hvernig kerfin geti í sameiningu veitt einstaklingi heildstæða þjónustu í samræmi við þarfir viðkomandi á hverjum tíma. 

Hluti af endurskoðun örorkulífeyriskerfisins

Ofangreint samstarf stuðlar að bættri þjónustu á sviði endurhæfingar og virkum vinnumarkaðsaðgerðum til að tryggja farsæla innleiðingu á þeim breytingum sem boðaðar hafa verið á örorkulífeyriskerfinu. Drög að frumvarpi vegna þeirra voru birt í samráðsgátt stjórnvalda fyrir helgi:

Markmiðið breytinganna er að bæta afkomu þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri – sérstaklega kjör þeirra sem minnst hafa – einfalda kerfið, draga úr tekjutengingum, auka hvata til atvinnuþátttöku og gera örorkulífeyriskerfið skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustukerfa komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa. 

Í frumvarpinu er lagt til að þau þjónustukerfi sem veiti endurhæfingarþjónustu skuli eiga með sér samstarf og samvinnu um endurhæfingu einstaklinga sem þurfa þjónustu fleiri en eins kerfis eða þurfa að fara á milli kerfa. Þetta á ekki síst við um þau sem eru með fjölþættan vanda. Enn fremur að komið skuli á samhæfingarteymum, líkt og lýst er að ofan, sem hafi yfirsýn yfir mál einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir. Teymin leggi til þá þjónustu sem gæti gagnast viðkomandi og skýrt sé hvar ábyrgð liggur. 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum