Útgáfa skilríkja erlendis

Útgáfa skilríkja erlendis

Þegar íslenskir ríkisborgarar eru staddir erlendis án gilds vegabréfs er hægt að leita til sendiskrifstofu eða ræðismanna Íslands til að fá útgefið nýtt ferðaskilríki. Hafi vegabréfi verið stolið eða það hefur týnst er um tvo kosti að velja. Sendiráð sem búa yfir rafrænum umsóknarbúnaði geta tekið við umsókn um nýtt vegabréf fyrir umsækjanda en þar sem slíkur búnaður er ekki til staðar er unnt að gefa út svokölluð neyðarvegabréf.

Hafi vegabréfi verið stolið [eða það glatast] skal tilkynna það til lögreglu og fá lögregluskýrslu auk þess sem rétt er að tilkynna það til næstu sendiskrifstofu eða ræðismannsskrifstofu.

Ávallt þarf að sækja um nýtt vegabréf í eigin persónu.

  1. Vegabréf

Búnaður til að taka við umsóknum um vegabréf er í eftirtöldum sendiráðum Íslands erlendis:  Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, London, Berlín, Washington DC og Peking. Í þessum sendiráðum er því hægt að sækja um vegabréf.

Almennur afgreiðslutími vegabréfa er 3 vikur.

Vegabréf eru póstsend. Umsækjandi getur óskað eftir því að fá að sækja vegabréf sitt í sendiráð eða fá það sent á þann stað þar sem hann dvelst.

  1. Framlenging vegabréfa

Öll sendiráð, fastanefndir og ræðismenn Íslands geta framlengt íslenskt vegabréf, ef það hefur runnið út á síðustu tólf mánuðum,  eða er að renna út á næstu mánuðum. Að hámarki er hægt að framlengja vegabréf um eitt ár þannig að upphaflegur gilditími þess framlengist um eitt ár. Ekki er tekið gjald fyrir framlengingu og er það því almennt besti kosturinn ætli viðkomandi sér að halda til Íslands innan gildistíma framlengingar vegabréfsins.  

  1. Neyðarvegabréf

Öll sendiráð, fastanefndir og ræðismenn Íslands geta gefið út neyðarvegabréf (Emergency Passport) til íslenskra ríkisborgara þegar það á við. Ath. þó að ræðismenn á Norðurlöndunum geta einungis tekið við umsóknum um neyðarvegabréf sem gefin eru út af sendiráði Íslands í viðkomandi landi.

Neyðarvegabréf er handskrifað ferðaskilríki og er hámarksgildistími þess 12 mánuðir. Eðli málsins samkvæmt er um óörugg ferðaskilríki að ræða sem þó gilda alltaf til heimferðar. Er því mælt með því að sótt verði um almennt vegabréf sem fyrst. Ekki er mælt með miklum ferðalögum með eingöngu neyðarvegabréf undir höndum.

  1. Ökuskírteini

Sendiráð taka á móti umsóknum vegna endurnýjunar ökuskírteina. Hægt er að sækja um endurnýjun með því að snúa sér til sendiráðs Íslands í viðkomandi landi í eigin persónu til að fylla út umsóknareyðublöð. Ekki er þó hægt að endurnýja 2ja ára reynsluskírteini sem ökumenn fá þegar þeir taka bílpróf í fyrsta sinn. Lögum samkvæmt þurfa þeir að fara til Íslands til að endurnýja slík skírteini.

  1. Gjaldtaka

Í 14. gr. laga nr. 88 frá 1991 um aukatekjur ríkissjóðs er mælt fyrir um gjaldtöku fyrir útgáfu vegabréfa, neyðarvegabréfa og ökuskírteina. 

  1. Hvar er hægt að sækja um skilríki

Sjá upplýsingar um sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur Íslands erlendis.

Sjá nánari upplýsingar í lögum nr. 136/1998 um vegabréf og reglugerð nr. 560/2009 um íslensk vegabréf.