Úganda

Úganda

Almennt

Úganda er hálent land í miðri austur Afríku. Landið er 240 þús ferkílómetrar að stærð og landamærin liggja að Súdan, Lýðræðislega lýðveldinu Kongó (DRC), Rúanda, Tansaníu og Kenía.

Samstarfsáætlun við Úganda 2014-2017

Úr ársskýrslu 2014

Hagvöxtur í Úganda mældist 4,9% á árinu 2014 sem var hækkun úr 3,9% frá árinu 2013. Veikleikar í heimshagkerfinu drógu úr frekari hagvexti, einkum vegna áhrifa á eftirspurn eftir úgönskum útflutningsvörum og innflæði beinna erlendra fjárfestinga. Mat Seðlabanka Úganda gerði ráð fyrir 0,7% minni hagvexti á árinu 2014 vegna skerðingu á framlögum þróunaraðstoðar frá framlagsríkjum. Ársverðbólga lækkaði niður í 4,3% að meðaltali í desember 2014 úr 5,5% í desember 2013. Hjöðnun verðbólgunnar mátti að hluta til rekja til lækkunar á matvælaverði heimafyrir vegna góðrar uppskeru, lægra heimsmarkaðsverðs á matvælum og því að verðhækkun á viðskiptavörum fór minnkandi sem orsakaðist meðal annars af lækkun á hráolíuverði.

Þrátt fyrir að þing- og forsetakosningar muni ekki fara fram fyrr en á fyrri hluta árs 2016 hófst umtalsverður undirbúningur fyrir kosningarnar á árinu 2014 og víst er að óútreiknanlegt en viðburðaríkt ár er framundan í pólitíkinni í Úganda.

Museveni forseti samþykkti frumvarp sem takmarkar réttindi samkynhneigðra (AHA) í febrúar 2014 og þar með voru harðar refsingar gegn samkynhneigð lögfestar. Einnig var tjáningarfrelsi, frelsi til funda og frelsi til að mynda félag með öðrum skert. Löggjöfin gegn samkynhneigð vakti upp hörð andmæli frá veitendum þróunaraðstoðar sem líta á það sem árás á mannréttindi. Fáein framlagsríki skáru niður heildarframlög sín til Úganda en margir veitendur þróunaraðstoðar ákváðu að veita ekki beinan fjárlagastuðning til ríkisstjórnarinnar en finna í staðinn aðrar leiðir til að veita aðstoð. Í júní höfðu framlagsríki haldið eftir 118 milljónum Bandaríkjadala eða veitt þróunaraðstoð eftir öðrum leiðum í mótmælaskyni gegn ákvæðum löggjafarinnar. Þessi viðbrögð veitenda þróunaraðstoðar endurspegla aðgerðir sem teknar voru í kjölfar spillingarhneykslis á skrifstofu forsætisráðherrans (OPM) sem komst upp um á árinu 2013. Þetta leiddi til þess að ríkisstjórn Úganda neyddist til að endurskoða fjárhagsáætlun sína fyrir fjárlagaárið 2014/15 og gera viðeigandi breytingar í ljósi niðurskurðar á beinum fjárlagastuðningi frá samstarfsaðilum Úganda á sviði þróunarsamvinnu. Í ágúst lýsti stjórnlagadómstóll Úganda því yfir að löggjöfin gegn samkynhneigð væri ógild vegna tæknilegra ástæðna en veitendur þróunaraðstoðar og erlendir fjárfestar eru enn varkárir, sérstaklega eftir að uppkasti að frumvarpi um „ónáttúrulegar kynlífsathafnir“ sem leggur áherslu á hvers konar kynningu og áróður fyrir samkynhneigð var lekið, því að það olli að nýju ótta um að þingið myndi samþykkja frumvarp sem felur í sér mismunun.


Lykiltölur

 • Mannfjöldi: 35.6 milljónir (SÞ 2012)
 • Höfuðborg: Kampala
 • Stærð landsins: 241,038 ferkílómetrar
 • Helstu tungumál: Enska (opinbert), Swahili, Ganda, ýmiss Bantu tungumál
 • Helstu trúarbrögð: Kristni, múhameðstrú
 • Lífslíkur: 54 ár (karlar), 55 ár (konur) (SÞ 2012)
 • Læsi (15 ára og eldri): 73% (SÞ 2012) 
 • HDI Rank: 161 (SÞ 2012)
 • Gjaldmiðill: 1 Úganda shilling = 100 cent
 • Helstu útflutningsafurðir: Kaffi, fiskur og fiksafurðir, te, tóbak, baðmull, maís, baunir, sesamjurt
 • VLF á mann (PPP): 510 Bandaríkjadalir (Alþjóðabankinn, 2011)
 • Landslén: .ug
 • Landsnúmer: +256

Fréttatenglar