Annað samstarf

Annað samstarf

Samráðsfundur um jarðhitamál, haldinn á Íslandi 26.-28. maí 2014

Hópmynd af þátttakendumSem hluta af samstarfi við Afríkusambandið hélt ÞSSÍ árlegan fund veitanda þróunaraðstoðar á sviði jarðhita í Austur Afríku, í lok maí á Íslandi. Fimm fulltrúar komu frá Afríkusambandinu m.a. Commissioner for Infrastructure and Energy. Einnig sendu helstu veitendur þróunaraðstoðar fulltrúa, þar á meðal Alþjóðabankinn, Evrópusambandið, Þýski þróunarbankinn, Afríski þróunarbankinn og þróunarsamvinnustofnanir Bandaríkjanna og Japan, USAID og JICA. Samstarfslönd í Afríku sendu einnig 1-2 fulltrúa á fundinn sem kostaður voru af ÞSSÍ og NDF. Í kjölfar fundarins var svo haldið tveggja daga námskeið, sem Jarðhitaskólinn hélt utan um, þar sem sérstaklega var hugað að jarðhitatengdum málum sem snerta veitendur þróunaraðstoðar. Námskeiðið var því liður í þeirri viðleitni að auka áhuga og þekkingu annara veitenda þróunaraðstoðar á jarðhita.

ÞSSÍ á einnig í samstarfi við Afríkusambandið (AUC) um fleiri mál er varða jarðhitaþróun í Afríku, og undir lok ársins kom beiðni frá AUC um að veittur yrði tæknilegur stuðningur fyrir lönd til að fullgera og bæta umsóknir sínar um styrki til jarðhitasjóðs AUC og þýska þróunarbankans. Með því að aðstoða lönd við að auka gæði umsókna aukast líkur eðlilega á fjármögnun, og verkefnið nær þannig að aðstoða við að hreyfa meira fjármagn til jarðhitamála í álfunni.

Mat á möguleikum til raforkuframleiðslu á lághitasvæðum

Mikilvægt er að huga að möguleikum þeirra ríkja, sem ekki hafa háhita, til að nýta jarðhitaauðlindir, jafnvel þó svo um tiltölulega lágan hita sé að ræða. Sem hluta af þeirri viðleitni hefur verkfræðistofan Verkís unnið skýrslu fyrir ÞSSÍ um raforkuframleiðslu á lághitasvæðum með tvívökvavirkjunum. Þar er m.a. reiknað út möglegur framleiðslukostnaður raforku á kílóvattstund út frá mismunandi hitastigi. Vonast er til að þessi skýrsla muni verða gagnlegt innlegg í umræðuna í þeim löndum þar sem ekki er um háhita að ræða. Ljóst er að það munar um hvert megavatt í mörgum löndum Afríku, og skýrslan leiðir í ljós að við hitastig í kringum 120-130 gráður má framleiða orku á samkeppnishæfu verði miðað við brennslu jarðefnaeldsneytis, og að sjálfsögðu mun umhverfisvænni.  Verkís kynnti niðurstöður skýrslunnar á fundi Alþjóðabankans um miðjan október og á Argeo ráðstefnunni í Tansaníu skömmu síðar.

Mat á möguleikum til nýtingar jarðhita til þurrkunar landbúnaðarafurða í Afríku

Sem hluta af þeirri viðleitni að skoða nýtingarmöguleika jarðhita á lághitasvæðum bað ÞSSÍ MATÍS um að gera  frumúttekt á möguleikum til að nýta jarðhita til þurrkunar á landbúnaðarafurðum í Afríku, og þá sérstaklega í Rúanda og Kenía. Skýrslunum  verður skilað fyrri hluta ársins 2015. Vonast er til að þessi úttekt skapi grundvöll fyrir frekari og þá ítarlegri skoðun á möguleikum til þurrkunar með jarðhita, til tilvísun til tiltekinna svæða og afurða.

Gagnagrunnur fyrir jarðhitaverkefni í Austur Afríku í samstarfi við UNEP

Á árinu 2014 var lokið vinnu við  jarðhitagagnagrunn fyrir Austur Afríku. UNEP hefur haft verkefnið með höndum með stuðningi frá ÞSSÍ. Á síðustu mánuðum hefur enn frekar orðið ljóst mikilvægi þess að safna á einn stað upplýsingum um jarðhitasvæði, verkefni, skýrslur, og þá aðila sem koma að jarðhitamálum á svæðinu. Gagnagrunnurinn mun svara þessari þörf og skapa mikilvægt aðgengi að gögnum fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Síðustu skrefin í yfirfærslu gagnagrunnsins til UNEP voru í október 2014, og hafa séfræðingar þeirra nú að fullu tekið við ábyrgð á rekstri og utanumhaldi. Gagnagrunnurinn var formlega opnaður á Argeo C5 ráðstefnunni í Arusha í október af Einar Gunnarssyni, þáverandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins. ÞSSÍ á einnig í góðu samstarfi við UNEP um ýmislegt sem snýr að svæðasamstarfi í Austur Afríku, s.s. þjálfunarmálum.