Íslenska friðargæslan

Íslenska friðargæslan

Friður, öryggi og þróun

Friður, öryggi og þróun eru nátengd. Friðvænlegt umhverfi er forsenda langtíma uppbyggingar og efnahagslegrar framþróunar. Að sama skapi getur veikt stjórnarfar, stöðnun og óvissa í fátækum ríkjum verið uppspretta ófriðar. Stríðsátök og óstöðugleiki getur haft áhrif langt út fyrir landamæri hlutaðeigandi ríkja, t.d. með aukinni útbreiðslu sjúkdóma, skipulagðir glæpa- og hryðjuverkastarfsemi, fólksflutningum og straumi flóttafólks.

Framlag Íslands til friðaruppbyggingar er mikilvægur liður í alþjóðasamstarfi Íslands og grundvallarþáttur í störfum innan Sameinuðu þjóðunum. Auk fjárframlaga til alþjóðlegrar friðargæslu SÞ  felst þátttaka Íslands í friðargæsluverkefnum í störfum sérfræðinga á vettvangi. Á síðustu árum hefur áhersla á mikilvægi borgaralegra endurreisnarstarfa í stríðshrjáðum löndum farið vaxandi í alþjóðastarfi, sem fellur vel að getu Íslands til þátttöku á þessum vettvangi.

Friðargæslustörf Íslands felast í störfum útsendra sérfræðinga á vegum alþjóðastofnana. Áhersla er lögð á aðstoð við þá sem minna mega sín s.s. flóttamenn og börn, auk áherslu á neyðaraðstoð, samhæfingu endurreisnarstarfs og stjórnarfar við framkvæmd ályktana Öryggisráðs SÞ um konur, frið og öryggi.

Íslensk stjórnvöld hafa einnig á undanförnum árum sent fjölda fólks til starfa við kosningaeftirlit. Í störfum Íslensku friðargæslunnar er lögð mikil áhersla á jafna kynjaskiptingu í hópi sérfræðinga sem starfa erlendis.

Íslenska friðargæslan hefur formlega starfað síðan 10. september 2001. Þátttaka Íslands í friðargæslu hófst þó nokkuð fyrr, þegar tveir íslenskir lögreglumenn fóru til starfa á vegum Sameinuðu þjóðanna árin 1950-1951.

Friðargæsluliðar sem starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar eru borgaralegir sérfræðingar á ýmsum sviðum. Enginn þeirra ber vopn.

Hinn 5. apríl 2007 gengu í gildi lög um Íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu. Í lögunum um Íslensku friðargæsluna er m.a. kveðið á um, að utanríkisráðuneytinu sé heimilt að taka þátt í alþjóðlegri friðargæslu og senda borgaralega sérfræðinga til starfa við friðargæsluverkefni, en til þeirra heyra m. a. verkefni, sem lúta að því að tryggja stöðugleika á átakasvæðum, stuðla að uppbyggingu stjórnmála- og efnahagslífs í þeim tilgangi að koma á varanlegum friði, stuðla að uppbyggingu innviða samfélags að loknum ófriði, og fyrirbyggjandi verkefni, sem miða að því að hindra, að ófriður brjótist út.

Íslenska friðargæslan starfar á þremur megin svæðum en þau eru Afghanistan, Afríka, og Mið-Austurlönd. Gerð hefur verið yfirlitsskýrsla um þátttöku Íslands í starfi ISAF í Afganistan, 2002-2014.


Skrifstofa Íslensku friðargæslunnar

Rauðarárstíg 27, 4. hæð, 150 Reykjavík

Auðbjörg Halldórsdóttir, forstöðumaður, audbjorg.halldorsdottir@utn.stjr.is  s: 545-7426

Snorri Matthíasson, sérfræðingur, snorri@mfa.is s: 545-7435

Lilja Jónsdóttir, stjórnarráðsfulltrúi, liljaj@mfa.is s: 545-8981