UNICEF
  • Stúlkur á leið til skóla

Barnahjálp SÞ (UNICEF)

Hlutverk Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna er að bæta hag barna, ungs fólks og kvenna. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er grunnurinn að starfi stofnunarinnar. Styrkur UNICEF felst í kraftmiklu starfi á vettvangi í 190 löndum, bæði í þróunarríkjum og með starfsemi landsnefnda.

UNICEF hefur mikla reynslu af starfi meðal ungs fólks og kvenna sem miðar að því að tryggja félagsleg réttindi þeirra. Starfsemi UNICEF er í eðli sínu þverfagleg en mikil áhersla er lögð á verkefni á sviði heilbrigðismála, menntamála og neyðaraðstoðar, auk þess sem umbætur í hreinlætismálum eru á forgangslista stofnunarinnar.

Ísland veitir almenn kjarnaframlög til UNICEF auk eyrnamerktra framlaga til starfsemi UNICEF í Palestínu. Einnig eru veitt framlög til samstarfsverkefnis UNICEF og UNFPA sem hefur að markmiði að afnema limlestingar á kynfærum kvenna og stúlkna (Female Genital Mutilation / Cutting - FGM/C). Þá fjármagnar Ísland stöðu ungs sérfræðings (Junior Professional Officer - JPO) á skrifstofu UNICEF í Malaví þar sem sérfræðingurinn vinnur að verkefnum á sviði menntamála.
 
Til viðbótar reglubundnum framlögum eru reglulega veitt framlög til neyðarverkefna á vegum UNICEF auk þess sem íslenskir sérfræðingar eru sendir til starfa fyrir stofnuna á vettvangi. 
 
Íslensk stjórnvöld hafa um árabil átt gott samstarf við Landsnefnd UNICEF á Íslandi, og hafa verið gerðir um það formlegir samstarfssamningar. Núverandi samstarfssamningur gildir fyrir árin 2014-2017.