Alþjóðabankinn

Alþjóðabankinn (The World Bank Group)

Hlutverk Alþjóðabankans er að stuðla að efnahagslegri og félagslegri uppbyggingu þróunarlanda. Bankinn starfar með stjórnvöldum hlutaðeigandi ríkja og veitir þeim aðstoð í formi lána, styrkja og ráðgjafar. Ísland á víðtækt samráð við Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin um stefnumótun innan Alþjóðabankans, en þessi lönd mynda eitt kjördæmi bankans. Alþjóðabankinn samanstendur af fimm stofnunum:

  • Alþjóðabanki til enduruppbyggingar og framþróunar (International Bank for Reconstruction and Development - IBRD) sem veitir lán með niðurgreiddum markaðsvöxtum til millitekjulanda. 
  • Alþjóðaframfarastofnunin (International Development Association - IDA) sem aðstoðar fátækustu þróunarríkin með styrkjum, vaxtalausum lánum og ábyrgðum til þróunarverkefna.
  • Alþjóðalánastofnunin (International Finance Corporation - IFC) sem styður við framþróun einkageirans í þróunarlöndum með lánveitingum til fjárfesta og með hlutafjárkaupum.
  • Fjölþjóðlega fjárfestingarábyrgðarstofnunin (Multilateral Investment Guarantee Agency - MIGA) sem veitir ábyrgðir vegna fjárfestinga einkaaðila í þróunarlöndum gegn áföllum sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, t.d. vegna ófriðar, eignaupptöku eða gjaldeyristakmarkana.
  • Alþjóðastofnunin um lausn fjárfestingardeilna (International Center for Settlement of Investment Disputes - ICSID) sem hvetur til erlendra fjárfestinga með því að vera óháð alþjóðastofnun sem veitir aðstoð til sáttagerðar og gerðardóma í lausnum fjárfestingardeilna.

Jarðhiti

Ísland styður ESMAP verkefnið sem miðar að því að veita tæknilega aðstoð í orkugeiranum til þess að auka orkuframleiðslu og stuðla að þróun á sjálfbæran hátt. Jarðhitasérfræðingur frá Íslandi starfar fyrir ESMAP við greiningu og þróun verkefna á vegum Alþjóðabankans í þróunarlöndum. Verkefnið nýtur einnig góðs af þeirri þekkingu sem hefur verið byggð upp í þróunarlöndunum gegnum starf Jarðhitaskóla SÞ.

Ísland hefur undirritað samning við Alþjóðabankann um stuðning við jarðhitaverkefni í Sigdalnum mikla í Afríku. Verkefnið gæti útvegað 150 milljónum manna aðgang að hreinni orku og er Ísland nú helsti samstarfsaðili bankans þegar kemur að jarðhitaverkefnum.

Fiskveiðar

Ísland studdi stofnun PROFISH verkefnisins árið 2005. Tilgangur þess er að stuðla að aukinni sjálfbærni í fiskveiðum samfara auknum hagvexti. Auk þess að styðja við verkefnið fjárhagslega hefur Ísland sent sérfræðing til starfa fyrir verkefnið. Ísland er einnig meðlimur The Global Partnership for Oceans (GPO) sem stofnað var til á Ríó +20 ráðstefnunni.  


Verkefni innan Alþjóðabankans sem Ísland hefur stutt sérstaklega: