Íslandsstofa

Íslandsstofa

Íslandsstofa er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um öflugt kynningar- og markaðsstarf erlendis og er ætlað að styðja við sókn fyrirtækja og stofnana á erlenda markaði. Íslandsstofa hefur umsjón með kynningu á Íslandi sem áfangastað fyrir ferðamenn og sem fjárfestingarkosti. Íslandsstofa þjónustar erlend menningarsamskipti og kynningu á menningu og listum erlendis.

Ætlunin er að með auknu samstarfi allra þeirra sem vinna að útflutningi og kynningar- og markaðsmálum erlendis náist umtalsvert meiri árangur af þessu starfi, og betri nýting fjármuna. Íslandsstofa mun einnig leika lykilhlutverk við eflingu ímyndar og orðspors Íslands erlendis.

Utanríkisþjónustan annast lögum samkvæmt upplýsinga- og kynningarstarf erlendis. Sendiskrifstofur hennar og tæplega 250 ræðisskrifstofur verða framlengdur armur Íslandsstofu um allan heim.