Feneyjatvíæringurinn 2013

Feneyjatvíæringurinn 2013

Feneyjartvíæringurinn - Katrín Sigurðardóttir

Katrín Sigurðardóttir hefur verið valin til að sýna fyrir Íslands hönd á Feneyjatvíæringnum 2013. Katrín hefur náð miklum árangri á innlendum og alþjóðlegum myndlistarvettvangi og hafa verkefni hennar, sem stöðugt hafa vaxið að umfangi, vakið verðskuldaða athygli undanfarin ár. Hún nýtur sérstöðu meðal íslenskra listamanna, einkum vegna margbrotinna skúlptúra og innsetninga sem byggjast á sterkum hugmyndafræðilegum grunni. Við val á listamanni íslenska skálans er litið til þess að viðkomandi hafi burði til að standa að mikilsverðu framlagi í alþjóðlegu samhengi samtímamyndlistar. 

Frá því að Ísland hóf þátttöku í Feneyjatvíæringinum árið 1960 hafa 22 íslenskir listamenn sýnt verk sín þar. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar hefur umsjón með íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum og er í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur sem mun taka framlag Katrínar til sýningar þegar sýningunni í Feneyjum lýkur. Val á fulltrúa Íslendinga á Feneyjatvíæringinn 2013 var í höndum fagráðs Kynningarmiðstöðvarinnar, en það skipa: Dorothée Kirch, framkvæmdarstjóri Kynningarmiðstöðvarinnar, Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Hafnarborgar og Hildur Bjarnadóttir, listamaður. Gestir nefndarinnar við valið voru  Ragnar Kjartansson, listamaður og Ólafur Gíslason, listfræðingur.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Icelandicpavilion.is