Evrópumál

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn)

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningurinn) er viðamesti samningur sem Ísland hefur gert á alþjóðavettvangi. EES-samningurinn er fríverslunarsamningur á milli þeirra EFTA-ríkja sem eru aðilar að EES (Ísland, Noregur, Lichtenstein) og Evrópusambandsins (ESB).

Samskipti Íslands við Evrópusambandið (ESB) grundvallast fyrst og fremst af EES-samningnum. Hann er einn af grunnstoðum efnahagslífs íslensku þjóðarinnar og veitir íslenskum ríkisborgurum, fyrirtækjum og stofnunum aðgang að innri markaði ESB.

Megittilgangur innri markaðarins er að tryggja hið svokallaða fjórþætta frelsi, þ.e. frjálsa vöruflutninga, frjálsa fólksflutninga, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga. Auk þess að tengja EFTA-ríkin innan EES við innri markað ESB felur EES-samningurinn í sér þáttöku Íslands í ýmsum öðrum áætlunum ESB, einkum á sviði menntunar, vísinda og rannsókna. Íslendingar geta til dæmis sótt sér fjármagn til ýmissa verkefna í sjóði ESB vegna EES-samningsins. Það má því segja að um sé að ræða viðskiptasamning sem gengur mun lengra en hefðbundnir fríverslunarsamningar.

EES-samningurinn öðlaðist gildi 1. janúar 1994 í kjölfar umfangsmikillar umræðu á Alþingi og í samfélaginu öllu.

Skrifstofa Evrópumála í utanríkisráðuneytinu og sendiráðið í Brussel gæta hagsmuna íslenskra borgara, fyrirtækja og stofnana gagnvart EES-samningnum í samráði við Alþingi, önnur ráðuneyti sem og stofnanir og samtök ólíkra hagsmunaaðila. Hagsmunagæslan fer fram í nánu samráði við þau EFTA-ríki sem eiga aðild að EES-samningnum.