Samskipti við ESB

SPURNINGAR OG SVÖR

Aðildarumsókn og samskipti við Evrópusambandið

Samtal hefur átt sér stað milli ESB og Íslands um stöðu Íslands sem umsóknarríkis. Þar kom fram að ríkisstjórnin hyggist ekki endurvekja aðildarferlið, að ný stefna komi í stað skuldbindinga fyrri ríkisstjórnar í aðildarferlinu og að ESB geri ráðstafanir sem taki mið af því að Ísland teljist ekki lengur umsóknarríki. Komi til þess að hefja eigi þetta ferli að nýju telur núverandi ríkisstjórn mikilvægt að það sé ekki gert án þess að spyrja þjóðina hvort hún vilji gerast aðili að Evrópusambandinu. Á sama tíma er áhersla lögð á styrka framkvæmd EES samningsins og nánara samstarf við ESB á grunni hans.

Hvers vegna að enda aðildarferlið?

Stefna beggja stjórnarflokka er skýr: hag Íslands er best borgið utan Evrópusambandsins. Þessi stefna lá fyrir í kosningabaráttunni og birtist í stjórnarsáttmálanum, þar sem hlé var gert á viðræðum og ákveðið að þeim yrði ekki framhaldið án þjóðaratkvæðis. Jafnframt var ákveðið að úttekt yrði gerð á viðræðum og stöðunni innan ESB og þróun þess. Ríkisstjórnin hefur fylgt þessari stefnu og staðið við það sem sagt var fyrir um í stjórnarsáttmálanum. Með þessu er staðan skýr gagnvart ESB, aðildarríkjum þess og íslensku þjóðinni í þessu máli. Á fundum forsætisráðherra Íslands með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og forseta leiðtogaráðsins í júlí 2013 var þessi nýja stefna útskýrð. Á þeim fundum kom skýrt fram að þessir tveir leiðtogar stofnana ESB myndu fagna skýrri stefnu varðandi aðildarferlið.

Hversu langt voru viðræðurnar komnar?

Alls voru 27 kaflar opnaðir og 11 lokað af 33 köflum en mikilvægustu og þyngstu samningskaflarnir, þ.á.m. um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál voru eftir.

Má búast við þjóðaratkvæðagreiðslu?

Ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um að efna til þjóðartkvæðis um viðræður við Evrópusambandið, þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin  Komi til þess að hefja ætti þetta ferli að nýju telur núverandi ríkisstjórn mikilvægt að það sé ekki gert án þess að spyrja þjóðina hvort hún vilji gerast aðili að ESB.

Hvernig sér ríkisstjórnin samskiptin við Evrópu?

Ríkisstjórnin leggur áherslu á öflug samskipti við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins og á þetta er lögð áhersla í bréfinu sem sent var formennskuríki ESB. Mikilvægt er að hlúa að EES-samningnum og efla þátttöku Íslands á vettvangi hans. Ríkisstjórnin gaf út Evrópustefnu í mars 2014 sem miðar að þessu og frá þeim tíma hefur verið unnið á grundvelli hennar.

EES-samningurinn leikur stórt hlutverk í löggjafarumhverfinu og er m.a. gífurlega mikilvægur fyrir útflutningshagsmuni Íslands, ekki síst í sjávarútvegi þar sem íslenskar afurðir eru í frjálsu flæði á evrópska efnahagssvæðinu. Huga þarf að virkni samningsins sem slíks og ekki síður að hagsmunum Íslands innan hans. 

Af hverju öflug samskipti við ESB fyrst aðild er ekki á dagskrá?

Evrópska efnahagssvæðið, EES, er einn mikilvægasti markaður Íslands og í raun heimamarkaður. Lykillinn að því er EES samningurinn. Í Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar [hlekkur í Evrópustefnu] http://www.utanrikisraduneyti.is/media/esb/Evropustefna.pdf er lögð áhersla á að styrkja EES-starfið.  Í stefnunni er lögð áhersla á skilvirka framkvæmd EES samningsins, m.a. með því að efla samráð innan stjórnsýslunnar og við Alþingi. Áhersla er á áframhaldandi sjálfstæð, virk og náin samskipti og samstarf við ESB og aðildarríki..

Hver er sýn utanríkisráðherra á EES samninginn og þróun hans?

Að Ísland verði sýnilegra á fyrstu stigum mála sem heyra undir samninginn og tali þar fyrir hagsmunum sínum. Þegar hefur verið gripið til aðgerða til að vinna að þessu markmiði, m.a. í gegnum stýrihóp forsætisráðuneytisins og samráðshóp atvinnulífsins. Báðum þessum hópum hefur verið komið á laggirnar á grundvelli Evrópustefnunnar. Nefna má nýlegt dæmi um öfluga hagsmunagæslu gagnvart ESB, þegar Ísland samdi fyrir skemmstu við ESB um aðlögun á sviði eftirlits með fjármálamörkuðum vegna þess að ekki var fyrir hendi heimild í stjórnarskrá um að taka löggjöfina upp án aðlögunar.

Ísland þarf að standa sig betur í að innleiða EES löggjöf. Þegar hefur ákveðinn árangur náðst við að bæta innleiðinguna en betur má ef duga skal. Þá þarf að forgangsraða kröftum þannig að þeim sé beint að afmörkuðum hagsmunamálum. Þess verður vart að í þau fáu skipti sem reynir á sérstöðu Íslands þá er æ  þyngra fyrir fæti að ná fram breytingum á grundvelli hennar. Þá er þróunin á regluverki EES samningsins  æ meira í þá átt að reyni á stjórnskipuleg atriði. Vinna verður að því að styrkja pólitíska aðkomu að rekstri samningsins, ekki síst frá ESB.

Hvað er nákvæmlega átt við með því að styrkja framkvæmd EES-samningsins?

Ísland stendur sig ekki nægilega vel í tímanlegri upptöku gerða í EES samninginn, hún tekur of langan tíma. Styrkja þarf vinnuna innanlands, í ráðuneytum og stofnunum til að hraða meðferð mála. Stýrihópur forsætisráðuneytisins um EES mál skoðar verkferla í þessu sambandi.

Stefnan er að koma fyrr að málum þannig að hagsmunagæsla verði öflug þegar á fyrstu stigum meðferðar mála innan ESB. Á meðal þess sem stjórnvöld stefna að því að gera er  mat á hagsmunum Íslands af EES samningnum. Settur hefur verið á fót samráðshópur m.a. með fulltrúum atvinnulífsins og utanríkisráðuneytis til þess að greina tækifæri innan Evrópu með hliðsjón af núgildandi viðskiptasamningum, unnið er að því að efla samstarfið við Noreg og Liechtenstein á vettvangi EES-samningsins, áhersla er lögð á áframhaldandi öflugt norrænt og vestnorrænt samstarf til að efla enn frekar hagsmunagæslu á Evrópuvettvangi og tvíhliða samstarf við önnur Evrópuríki, svo sem á sviði öryggismála, viðskiptamála og vísinda og menningarmála, verði styrkt.

Hafa lok aðildarferils áhrif á trúverðugleika Íslands hjá ESB og aðildarríkjum?

Að ljúka ferlinu með þessum hætti átti sér stað með samtali við ESB. Staðreyndin er sú að samstarf Íslands og Evrópusambandsins hefur verið náið um áratugaskeið.  Ráðamenn ESB hafa ítrekað tekið fram að þeir vilji áframhaldandi þétt samstarf við Ísland og sú er raunin, því Ísland á í nánu samstarfi við öll aðildarríki ESB innan ýmissa alþjóðlegra stofnana. Trúverðugleiki Íslands liggur í því að hafa stöðuga stefnu til lengri tíma litið sem byggð er á traustum grunni.

Geta þessi lok aðildarferlis haft áhrif á rekstur EES samningsins?

Það hefur ávallt tekist að leysa öll mál á vettvangi EES og engin ástæða er til að ætla að þetta breyti nokkru þar um. Því má ekki gleyma að um er að ræða gagnkvæman samning milli annarsvegar Noregs, Íslands og Liechtenstein  og hinsvegar ESB þar sem báðir aðilar þurfa að vinna saman og sýna sveigjanleika. 

Getur það haft neikvæð áhrif á samstöðu Evrópuríkja og ESB sjálft að aðildarferli ljúki með þessum hætti?

Þessi niðurstaða var í raun ljós þegar í upphafi kjörtímabilsins m.t.t. stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Samstaða Íslands með öðrum líkt þenkjandi Evrópuríkjum, ESB, NATO ofl. er hafin yfir allan vafa. Slíkt bandalag og samstaða byggja á sterkum grunni sem þetta varpar ekki skugga á. Ísland er ekki fyrsta ríkið sem sér sig um hönd eftir að hafa sótt um aðild að ESB, sbr. Norðmenn, sem eiga rétt eins og við í mikil og góð samskipti við ESB. Samstarf við ESB er víðtækara en EES samningurinn og hefur verið um langa hríð. Sú hryðjuverkaógn sem nú steðjar að Evrópu er t.d. mál þar sem Ísland á náið samráð við ESB  og aðildarríki þess.