Brexit

Úrsögn Bretlands úr ESB - Áhrif á Íslandi

Spurningar og svör

Spurningar og svör

1. Verða einhver áhrif af þessari niðurstöðu á Ísland?

Það verða engin bein áhrif á Ísland til skamms tíma umfram þau áhrif sem kunna að koma fram vegna viðbragða á mörkuðum í Bretlandi eins og t.d. vegna gengisbreytinga.

Til lengri tíma verður að ganga út frá því að útganga Bretlands úr ESB muni hafa í för með sér uppsögn Breta á EES – samningnum.

Af því leiðir að Ísland þarf að semja á ný við Bretland um atriði sem í dag falla undir EES – samninginn; einkum og sér í lagi tolla, fjárfestingar, för fólks, flugsamgöngur svo dæmi séu tekin.

2.  Hver eru viðskipti Íslands og Bretlands?

Vöruviðskipti

Útflutningur fob, innflutningur cif. Gengi hvers tíma. Fjárhæðir í millj. kr.

  2013 2014 2015
Útflutningur til Bretlands 57.895 66.327 72.661
Innflutningur frá Bretlandi 36.619 37.846 35.271
Hlutfall af heildarútflutningi (%) 9,5 11,2 11,6
Hlutfall af heildarinnflutningi (%) 6,3 6,0 5,4

Þjónustuviðskipti (millj. kr.)

  2013 2014
Útflutt þjónusta til Bretlands 39.998 49.164
Innflutt þjónusta frá Bretlandi 49.315 55.122
Hlutfall af heildarútflutningi þjónustu (%) 8,2 9,9
Hlutfall af heildarinnflutningi þjónustu (%) 14,3 15,1

Vöru- og þjónustuviðskipti

  2013 2014
  2013 2014
Hlutfall af heildar vöru- og þjónustuútflutningi til Bretlands (%) 9,3 10,8
Hlutfall af heildar vöru- og þjónustuinnflutningi frá Bretlandi (%) 9,2 9,4

Fjöldi ferðamanna

  2013 2014 2015
Heildarfjöldi erlendra ferðamanna 807.349 997.556 1.289.140
Fjöldi ferðamanna frá Bretlandi 137.108 180.503 241.024
Hlutfall af heild frá Bretlandi (%) 17,0 18,1 18,7

Tíðni flugferða

  2012 2013 2014 2015
  2012 2013 2014 2015
Fjöldi flugferða milli Íslands og Bretlands 3.150 4.288 5.426 6.427
Aukning milli ára (%)   36,1 26,5 18,4

3. Er fríverslunarsamningur milli Íslands og ESB eða Íslands og Bretlands?

EES – samningurinn og fríverslunarsamningur Íslands og ESB frá 1972 eru þeir samningar sem eru grundvöllur viðskiptasambands Íslands og ESB annars vegar og Íslands og Bretlands hins vegar.

Ekki er til staðar fríverslunarsamningur milli Íslands og Bretlands til að taka við af framangreindum samningum.

Nauðsynlegt er því að gera nýjan viðskiptasamning við Bretland.

4. Hvað tekur við fyrir Ísland ef Bretland gengur úr ESB?

Í fyrsta lagi tekur nú við það ferli að Bretland og ESB hefja samninga um útgöngu Breta úr ESB á grundvelli 50. gr. sáttmála ESB. Í þeim samningi geta aðilar t.d. samið um framtíðar fyrirkomulag samskipta sinna.

Hvað Ísland varðar og eftir atvikum önnur EFTA ríki þá er það verkefnið framundan að tryggja festu og stöðugleika í samskiptum landanna, að viðskiptakjör verði framvegis a.m.k. jafn góð og hingað til og frelsi íbúanna til ferða og búsetu í hvoru landi fyrir sig haldist óbreytt..

5. Hvað gerist næst?

Eins og kom fram munu Bretar og ESB hefja viðræður um fyrirkomulag útgöngu Breta úr ESB og eftir atvikum um fyrirkomulag samskipta til lengri tíma. Ekkert liggur fyrir um hvert verður efni slíks samnings.

Hvað varðar Ísland og eftir atvikum EFTA ríkin þá verða teknar upp viðræður bæði við Bretland og ESB til að skýra hagsmuni þjóðanna og leita eftir viðræðum um framtíðar fyrirkomulag viðskiptasamskipta við Bretland.

6. Hverjir eru valkostir Bretlands?

Það er breskra stjórnvalda að marka stefnu varðandi framhaldið. Nokkrir kostir standa Bretum væntanlega opnir eins og til dæmis að kveða á um ákveðnar lausnir í útgöngusamningi við ESB, að gera fríverslunarsamning við ESB eða að reiða sig á regluverk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, í viðskiptum við önnur ríki.

7. Getur Bretland gengið aftur í EFTA eða verið áfram þátttakandi á innri markaði gegnum EES eða annan samning af því tagi?

Bretland getur sótt um aðild að EFTA og þá eftir atvikum orðið aðili að EES – samningnum kjósi Bretland að sækja um slíka aðild og um það semst við ESB.

8. Hvað eru stjórnvöld að gera til að tryggja hagsmuni Íslands gagnvart Bretlandi?

Ísland hefur þegar átt samtöl við fulltrúa breskra stjórnvalda og fulltrúa ESB í því skyni að koma þeim sjónarmiðum á framfæri að allt verði reynt til að viðhalda því viðskiptasambandi sem ríkt hefur á milli Íslands og Bretlands í áratugi.

Meginverkefni íslenskra stjórnvalda á næstu misserum verður að tryggja að svo verði í tengslum við útgöngu Bretlands úr ESB.

9. Hvað þýðir þetta fyrir Íslendinga sem eru við nám og störf í Bretlandi (íslensk fyrirtæki)?

Að svo stöddu hefur þessi niðurstaða ekki áhrif á viðskiptakjör Íslands í Bretlandi. Hið sama á við varðandi stöðu einstaklinga sem eru við nám eða hyggjast sækja nám í Bretlandi eða um íslensk fyrirtæki sem eru með starfstöðvar í Bretlandi o.s.frv.

EES – samningurinn gildir áfram eða a.m.k. þar til að útgöngusamningur Bretlands úr ESB tekur gildi.

10. Hversu margir Íslendingar eru við nám og störf í Bretlandi og hversu margir breskir ríkisborgarar búa á Íslandi?

Fjöldi breskra ríkisborgara með búsetu á Íslandi þann 1.janúar 2015 voru 670. Ekki liggja fyrir tölur um hversu margir Bretar hafa atvinnu á Íslandi.

Fjöldi einstaklinga á Íslandi sem fæðst höfðu í Bretlandi voru þá 1.307.

Á sama tíma var fjöldi Íslendinga með lögheimili í Bretlandi u.þ.b. 2.200 skv. þjóðskrá. Taka verður þessari tölu með fyrirvara, því engar tilkynningar berast þjóðskrá um flutninga milli landa þegar hvorugt landið er Ísland og því líklega um ofmat að ræða. Skv. mannfjöldatölum bresku hagstofunnar er fjöldi Íslendinga áætlaður um eitt þúsund manns.

Skráðir námsmenn í Bretlandi eru um 250 talsins. Árin 2012-2013 nýttu um 30 íslenskir nemendur Erasmus áætlunina til náms í Bretlandi. Álíka fjöldi Breta kom til Íslands í gegnum Erasmus á sama tíma.